Það hefur varla farið framhjá neinum sem hefur séð The Hangover Part II að ein aðalpersónan skartar heldur vígalegu húðflúri á andlitinu. Sömuleiðis hafa flestir án efa séð að þar var nákvæm eftirlíking af húðflúri ólátabelgisins Mike Tyson sem fer á kostum í myndinni.
Þótt boxarinn fyrrverandi sé sjálfur sáttur brandarann er ekki hægt að segja það sama um listamanninn sem skapaði verkið, en sá hinn sami hefur staðið í málsókn við Warner Bros. vegna myndarinnar. Húðflúrarinn segir Warner Bros hafa notið verkið í leyfisleysi og hann ekki fengið krónu fyrir sinn snúð.
Nú hefur komið í ljós að náist ekki sátt í málinu muni Warner Bros. fjarlæga húðflúrið úr myndinni áður en hún verður gefin út á DVD. Slíkt myndi kosta sitt en þó ekki jafn mikið og listamaðurinn fer fram á í skaðabætur. The Hangover Part II verður gefin út á DVD í byrjun desember og því nægur tími fyrir Warner Bros. að fiffa upp á myndina.