Húmorsleysi með bremsuförum

Það er ansi formúlulegur grundvöllur sem Hit and Run byggir á en myndin forðast það reyndar býsna vel að spilast ekki eins og hver önnur rómantísk hasargamanmynd þar sem þvingaður húmor liggur á öxlum fallegra leikara. Þvert á móti fær maður sterklega þá tilfinningu að myndin, þrátt fyrir sinn leiðinlega titil, hafi reynt að vera eitthvað svo miklu meira en það. Hún lætur hræódýrt fjármagn ekkert stoppa sig og reynir að vera spennandi, fyndin, krúttleg, snjöll og raunveruleg, allt í einum pakka. Skemmtilegt markmið, óneitanlega, en góð bíómynd stýrist ekki alfarið af metnaði ef það er erfitt að líka vel við meirihlutann af því sem er í boði.

Myndin hefur bílaeltingaleiki, flippaðar uppákomur (er það ekki alltaf þannig?), dúllulegt par og handrit þar sem reynt er að ganga í augun á kvikmyndanördum með því að bræða saman húmor, hnyttni og ofbeldi á agressívan máta. Vandinn er einfaldlega bara sá að myndin er bara ekkert skemmtileg þó að hún komist alveg hjá því að vera drepleiðinleg, sem er trúlega fínt afrek í sjálfu sér. Hún byrjar ágætlega og stráir þokkalegum samtalssenum inn á milli þegar lengra líður á hana, en svo verður hún bara ómerkilegri en flatur bjór eftir miðbikið og missir á endanum þann litla sjarma sem hún hafði í byrjun með hræðilegum lokakafla. Bílahasarinn er þolanlegur í fyrstu en verður síðan að þreyttri, titrandi rútínu. Húmorinn er samt undarlegasta fyrirbærið við myndina. Heildin hefur sitt hvað af kostum en spriklandi kímnigáfa er ekki þar á meðal. Húmorinn er vel meintur en er alveg gjörsamlega vonlaus. Ég hló ekki í eitt skipti, en brosti kannski fimm eða sex sinnum.

Dax Shepard er örugglega fínn gaur. Þegar hann er ekki einhæfur eða pirrandi þá er viðkunnanlegan mann að finna í honum og sú hlið skín í gegnum þessa mynd. Hann er léttlyndur en samt dálítill töffari líka, eða allavega eins mikill töffari og hann getur nokkurn tíma orðið. Karakterinn er samt grunnur og meingallaður (og ekki á jákvæðan hátt). Það vantar að vísu ekki neistaflugið hjá honum og Kristen Bell, sem er fínt vegna þess að stelpukrúttið stendur sig ekkert sérstaklega vel í myndinni nema þegar hún nöldrar. Það eina sem maður trúir er að hún er vafalaust ástfangin af mótleikara sínum.

Það er samt greinilegt að þessi mynd hafi skipt Shepard talsverðu máli. Hann er líka einn stærsti ábyrgðarmaðurinn fyrst hann er (augljóslega) einn af aðalleikurunum ásamt sinni eigin kærustu, annar leikstjórinn, handritshöfundurinn svo ekki sé minnst á það að flottu kaggarnir sem sjást í myndinni eru allir sagðir vera úr einkasafninu hans (og þarna blossar upp öfundsýkissvitinn …). Það er samt ekki fræðilegur möguleiki að þessi mynd sé eitthvað að fara að lyfta upp ferlinum hjá honum eða frúnni. Fín tilraun samt.

Bestu atriðin falla strax í gleymsku eftir sýningartímann. Bradley Cooper græðir ekki einu sinni nokkurn skapaðan hlut á þátttöku sinni. Það má vera að hann og Shepard séu góðir vinir, ég myndi skilja ákvörðunina að leika í mynd eins og þessari ef hann væri ekki orðinn svona frægur eins og hann er í dag. Hann gerir sig bara að hálfgerðu fífli, því fyndinn eða minnisstæður er hann alls ekki, þó að hann hafi eflaust átt að vera það.

Hit and Run felur ekki bremsuförin sín. Enginn saur svosem, en glæpsamlega nálægt þeim bæ. Myndin vill bara vera svo margt en endar með því að verða bara að nákvæmlega engu. Síðan er Tom Arnold að reyna að vera fyndinn klaufi í henni, sem er meira en góð ástæða til þess að forðast þessi ómerku, spennulausu, húmorslausu þunnildi.

 
(4/10)