Meðlimir Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar hafa valið kvikmyndina Hrúta sem framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári. Hrútar mun því keppa fyrir Íslands hönd um Óskarsverðlaunin fyrir bestu kvikmyndina á erlendu tungumáli.
Hrútar hlaut meirihluta atkvæða Akademíumeðlima en kosningu lauk á miðnætti í gær. Kosningin fór fram rafrænt og kosið var á milli þeirra fimm íslensku kvikmynda sem uppfylltu það skilyrði bandarísku kvikmyndaakademíunnar að hafa verið frumsýndar á tímabilinu 1. október 2014 til 30. september 2015.
Hrútar fjallar um tvo sauðfjárbændur á sjötugsaldri, bræðurna Gumma og Kidda, sem búa hlið við hlið í afskekktum dal á Norðurlandi. Fjárstofn þeirra bræðra þykir einn sá besti á landinu og eru þeir margverðlaunaðir fyrir hrútana sína. Þrátt fyrir að deila sama landi og lífsviðurværi þá hafa bræðurnir ekki talast við í fjóra áratugi..
Grímur Hákonarson leikstýrir og skrifar handritið að Hrútum. Aðalframleiðandi myndarinnar er Grímar Jónsson fyrir Netop Films og meðframleiðendur eru hin dönsku Ditte Milsted og Jacob Jarek fyrir Profile Pictures.
Hrútar var frumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni í maí , en hún vann þar til Un Certain Regard verðlaunanna. Auk þess hefur myndin hlotið sérstök dómnefndarverðlaun og áhorfendaverðlaun Transilvania kvikmyndahátíðarinnar í Rúmeníu, svo og Gullna Turninn fyrir bestu mynd á evrópsku kvikmyndahátíðinni í Palić í Serbíu. Þá var myndin valin til þátttöku á Karlovy Vary kvikmyndahátíðinni, Telluride kvikmyndahátíðinni í Colorado í Bandaríkjunum og Toronto kvikmyndahátíðinni í Kanada. Einnig voru Hrútar tilnefnd til LUX kvikmyndaverðlaunanna, sem eru kvikmyndaverðlaun Evrópusambandsins, auk tilnefningar til Evrópsku kvikmyndaverðlaunana.
Tvær íslenskar kvikmyndir hafa hlotið tilnefningu til Óskarsverðlaunanna. Börn náttúrunnar eftir Friðrik Þór Friðriksson var tilnefnd árið 1992 í flokknum besta erlenda kvikmyndin og árið 2006 var Síðasti bærinn eftir Rúnar Rúnarsson tilnefnd í flokknum besta leikna stuttmyndin.