Hrútar, nýjasta kvikmynd Gríms Hákonarsonar, var heimsfrumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni í dag sem hluti af Un Certain Regard keppninni.
Í tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslans segir að fyrir sýningu hafi helstu aðstandendur myndarinnar, þeir Grímur Hákonarson handritshöfundur og leikstjóri, Grímar Jónsson framleiðandi og Sigurður Sigurjónsson og Theodór Júlíusson aðalleikarar myndarinnar verið kallaðir upp á svið af Thierry Frémaux, listrænum stjórnanda hátíðarinnar. Thierry spurði Grím nokkurra vel valinna spurninga áður en sýning hófst í fullum sal.
„Hlaut myndin frábærar viðtökur, í lok sýningar risu áhorfendur úr sætum sínum og uppskáru aðstandendur myndarinnar dynjandi lófatak,“ segir í tilkynningunni.
Á meðal áhorfenda var Isabella Rossellini, formaður dómnefndar Un Certain Regard keppninnar. Hrútar keppir við 19 aðrar kvikmyndir um Un Certain Regard Prix. Úrslitin verða kunngjörð á verðlaunahátíð þann 24. maí.
Einnig var viðstödd sýninguna Ragnheiður Elín Árnadóttir iðnaðar- og viðskiptaráðherra.
Hrútar hefur hlotið talsverða umfjöllun í hinum virtu tímaritum Variety og Screen í aðdraganda sýningarinnar, auk þess sem bæði tímarit tóku viðtal við Grím leikstjóra af tilefninu. Þá hafa Variety og Screen nú þegar birt dóma sína um myndina, og eru þeir báðir afar lofsamlegir.