Núna geta aðdáendur Hringadróttinssögu andað léttar, en í nýlegu viðtali við kanadíska fréttamiðilinn The Province staðfesti tónskáldið Howard Shore að hann muni semja tónlistina fyrir The Hobbit. Shore, sem samdi tónlistina fyrir Hringadróttins-þríleikinn víðfræga og hlaut þrenn Óskarsverðlaun fyrir, lét hafa eftir sér, „Við höfum talað um að gera þessar myndir mjög lengi. Nánast síðan 2002. Núna virðist það loksins vera að gerast, ég verð upptekinn við þetta næstu þrjú árin.“
The Hobbit, sem er að sjálfsögðu byggð á samnefndri skáldsögu J.R.R Tolkien, fjallar um unga hobbitann Bilbo Baggins, en líf hans verður heldur betur spennandi þegar hann leggur í leiðangur með hóp dverga. Á vegi hans verða skrímsli, drekar og að sjálfsögðu mjög sérstakur hringur sem flestir ættu að kannast við. Með hlutverk Bilbo fer Martin Freeman, sem aðdáendur hafa lengi viljað sjá í hlutverkinu, og að öllu óbreyttu snýr Ian McKellen aftur í hlutverki galdramannsins Gandalfs. Peter Jackson sest eina ferðina enn í leikstjórastólinn en sagan verður gefinn út í tveimur hlutum og sú fyrri lendir í bíóhúsum í desember árið 2012.
– Bjarki Dagur