Í gamanmyndinni No Hard Feelings sem kom í bíó nú um helgina leikur Jennifer Lawrence blankan Uber bílstjóra, Maddie, sem svarar auglýsingu frá foreldrum sem leita að konu til að fara á stefnumót – og sofa hjá – eilítið dulum syni þeirra.
Myndin er byggð á raunverulegri smáauglýsingu sem birt var í Bandaríkjunum.
Lawrence sló í gegn sem Katniss Everdeen í Hunger Games myndunum. Síðar varð hún tekjuhæsta leikkona heims og sópaði til sínu verðlaunum eins og Óskar, BAFTA og ófáum Critics´ Choise og Golden Globe styttum.
Uber bílstjórinn Maddie þarfnast nauðsynlega meiri tekna og svarar auglýsingu efnaðra hjóna sem leita að einhverri til að fara með 19 ára gömlum feimnum syni þeirra Percy á stefnumót áður en hann fer í háskóla....
Í samtali við Sky News segir hún að handritið hafi verið þess eðlis að hún hafi ekki getað annað en leikið í kvikmyndinni.
Endurkoma R merktra
Lawrence hefur mestmegnis leikið í dramamyndum síðustu ár og er þessi mynd því fyrsta gamanmynd hennar í langan tíma. Hér Íslandi er myndin bönnuð innan fjórtán ára, í Bretlandi innan 15 og í Bandaríkjunum fær hún R stimpilinn, sem þýðir að allir undir 17 ára þurfa að koma í fylgd með fullorðnum.
Myndin þykir marka endurkomu R merktra gamanmynda inn í kvikmyndahúsin, mynda eins og There’s Something About Mary, American Pie, 40-Year-Old Virgin, Wedding Crashers og Superbad.
Lawrence sagði við Sky News að hún teldi að heimurinn þyrfti á gamanmynd að halda þessi misserin – og ef áhorfendum finnist eitthvað stuðandi í myndinni, þá sé það kannski bara hið besta mál.
Matthew Broderick og Laura Benanti leika foreldra Percy. Ljósmynd: Sony Pictures
„Ég held að það sé kominn tími á gamaldags hlátrasköll,“ segir hún. „Og það er mjög erfitt að gera gamanmynd þar sem enginn móðgast. Allir munu móðgast á einhvern hátt við að sjá þessa mynd – gjörðu svo vel,“ segir Lawrence.
Mótleikari hennar, Andrew Barth Feldman, sem leikur Percy, táninginn sem Maddie er greitt fyrir að draga á tálar, er sammála.
Góð í að ögra
„Við verðum að geta ráðið við að verða móðguð,“ segir hann. „Það var og er svo mikið verið að of-leiðrétta því við áttuðum okkur á að það væru svo margir hlutir sem við grínuðumst með sem við ættum ekki að vera að gera … og ég held að kvikmyndin geri vel í að ögra á sama tíma og eiga í samtali um að það sem þetta fólk er að gera er rangt, eða slæm hugmynd.“
Galopin fyrir gamanmynd
Lawrence hefur leitað í þónokkurn tíma að tækifæri til að leika í gamanmynd. „Ég var galopin fyrir því,“ segir hún „Ég myndi ekki segja að ég hafi verið: „Mig langar rosalega mikið að persóna mín reyni að stunda kynlíf með yngri aðila“, en ég las handritið og það var það fyndnasta sem ég hafði nokkurn tímann séð.“
„Percy er fastur í þessari búbblu – heimurinn úti er allur í símanum hans og foreldrarnir vilja helst geyma hann í kúluplasti, og hann þolir það ekki, en það veitir honum öryggi; en hann þarf að brjótast út úr þessu. Hann þarf að átta sig á að hann geti sjálfur tekið ákvarðanir og í raun, lagt frá sér símann um stund.“