Dreifingarfyrirtækið RADiUS-TWC, sem er í eigu framleiðslurisans The Weinstein Company, hefur keypt dreifingarréttinn í Bandaríkjunum að nýjustu mynd gamanleikarans Mike Myers, Supermensch: The Legend Of Shep Gordon.
Þetta er heimildarmynd sem frumsýnd var 7. september sl. í Roy Thompson Hall á kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada, og er fyrsta myndin í fullri lengd sem Myers leikstýrir.
Frumsýna á myndina snemma á næsta ári.
Myndin fjallar um líf Shep Gordon, en hann varð umboðsmaður eftir að hann hitti tónlistargoðsagnirnar Jimi Hendrix og Janis Joplin fyrir tilviljun. Joplin er sögð hafa liðið illa yfir að hafa slegið Gordon í andlitið kvöldið áður, en Gordon hafði þá ætlað að aðstoða hana þar sem hann taldi að verið væri að ráðast að henni, og hann truflaði ástarfund sem átti sér stað með samþykki beggja á grasflöt fyrir utan hótelgluggann hans.
Eftir þetta átti hann í litríku sambandi við stóra listamenn eins og Alice Cooper, Anne Murray, Teddy Pendergrass og Blondie.
Myers kynntist Gordon þegar hann var að reyna að fá rokkstjörnuna Alice Cooper til að koma fram í Wane´s World.
Í tilkynningu af þessu tilefni sagði Myers: „Ég er hæstánægður með að RADiUS -TWC ætlar að dreifa Supermensch, en þeir eru bestir í bransanum og skilja að þessi mynd er gerð til heiðurs frábærum manni, Mr. Shep Gordon. Harvey Weinstein er snillingur.“
Hér fyrir neðan eru myndbönd af Alice Cooper og síðan Mike Myers að koma til frumsýningar á myndinni: