Heiðar Sumarliðason, kvikmyndagagnrýnandi Vísis og stjórnandi hlaðvarpsins Stjörnubíó, er allt annað en ánægður með Mulan, nýjustu leiknu endurgerð Disney. Hann segir myndina vera sundur- og sálarlausa vöru af Hollywood-færibandinu og kveðst ekki geta mælt með myndinni við nokkurn einstakling. Í dómnum veltir hann jafnframt fyrir sér handa hverjum þessi kvikmynd er gerð.
Gagnrýnandinn viðurkennir þó að þekkja ekki mikið til upprunalegu teiknimyndarinnar, sem víða er talin með þeim betri úr kanónu Disney-teiknimynda.
„Ég verð að játa að ég sá Mulan ekki þegar hún kom í kvikmyndahús á sínum tíma. Ég var reyndar 19 ára gamall og ekki mikið að horfa á barnamyndir, því löglega afsakaður. Mig minnti samt að hún hefði ekki flogið sérlega hátt, eða a.m.k ekkert á við margar af fyrri teiknimyndum Disney. Því skoðaði ég aðsóknartölur, sem svo staðfestu grun minn. Hún er hálfdrættingur á við fyrrnefndar Disney-myndir. Ef við skoðum aðsóknartölur í Bandaríkjunum endaði Mulan með 120 milljónir dollara í tekjur,“ segir Heiðar og kallar nýju myndina „ekkert annað en afleitt prump.“
„Ég spyr mig einnig fyrir hvern þessi kvikmynd er gerð?“ segir einnig í dómnum.
„Hún er á of lágu plani fyrir fullorðna og samkvæmt því sem ég heyri þykir börnum hún almennt leiðinleg. Því endar hún á einhverju furðulegu millistigi, og er í raun ekki fyrir neinn.“
Mikið umtal hefur skapast í kringum Mulan endurgerðina en upphaflega stóð til að gefa myndina út í bíó í mars á þessu ári. Eftir að COVID skall á var bíóútgáfu frestað og að lokum tekin sú ákvörðun að gefa myndina út á streymisveitunni Disney+.
Hefur Disney einnig þurft að kljást við fjölda mótmæla sökum þess að Mulan var að hluta til tekin upp í Xinjiang sjálfstjórnarhéraðinu í vesturhluta Kína. Meðferð stjórnvalda á Uighur múslimum og öðrum minnihlutahópum þar hefur ítrekað verið gagnrýnd. Yfirvöld hafa margsinnis verið sökuð um að hylma yfir dráp á Uighur-mönnum.
Sérfræðingar Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasamtök segja kínversk yfirvöld vera með um eina milljón Uighur-múslima í haldi í sérstökum kyrrsetningabúðum en stjórnvöld fullyrða hins vegar að um sé að ræða sérstakar starfsþjálfunarbúðir sem ætlaðar séu til að vinna gegn öfgasinnum.
Burtséð frá allri pólitík hefur Mulan hlotið þokkalega dóma gagnrýnenda og vakti góða lukku meðal áskriftenda Disney+. Myndin á þó enn langt í land með að koma út í hagnaði en heildarkostnaður – með markaðssetningu og öllu – nemur um 300 milljónum Bandaríkjadala, í það minnsta.