Tom Hardy var góður í hlutverki ofurhetjunnar Venom í fyrra, en menn voru þó missáttir við myndina, eins og gengur. Tekjurnar voru þó átta sinnum meiri en kostnaðurinn, og því nokkuð ljóst að gerð yrði framhaldsmynd.
Nú hefur framleiðandi myndarinnar, Amy Pascal, staðfest að Hardy sé klár í slaginn, og muni mæta aftur til leiks í Venom 2.
„Ég get staðfest að Tom Hardy mætir aftur til leiks, og leikur persónuna á þann töfrandi hátt sem hann einn er fær um,“ sagði hún í samtali við vefsíðuna Fandango. „Þegar þú hugsar um Venom, þá er ekki hægt að sjá fyrir sér neinn annan en Tom Hardy sitjandi í baði með lifandi humrum,“ segir Pascal og vísar þar í atriði úr fyrstu myndinni, þar sem Venom er glorhungraður og ræðst á humra í fiskabúri inni á fínum veitingastað. „Um leið og maður sér Tom Hardy í hlutverkinu, þá þarf maður ekkert meira.“
Í samtalinu ræðir hún einnig um orð Kevin Feige forstjóra Marvel, um tengsl Venom og Spider-Man. „Allir vildu sjá tengsl þarna á milli,“ bætti hún við. „Maður veit aldrei … það gæti gerst. Ég get bara sagt að við höfum átt frábært samstarf, og maður veit aldrei hvað gerist. Við erum með fullt af sögum til að segja um Spider-Man, út frá ýmsum hliðum. Við erum með stórar fyrirætlanir um að Tom Holland ( sá sem leikur Spider-Man ) verði hluti af þessu öllu saman.“
Upprunalegi handritshöfundur Venom, Kelly Marcel, mun skrifa Venom 2 einnig. Óljóst er hinsvegar hvort að leikstjórinn Ruben Fleischer snúi aftur, enda á hann annríkt við leikstjórn Zombieland 2, sem á að frumsýna 11. október næstkomandi hér á landi.