Murray Gershenz, sem var frægur fyrir hlutverk sitt sem Felix í kvikmyndinni The Hangover lést úr hjartaslagi í gær, 28. ágúst, í Hollywood í Los Angeles í Bandaríkjunum.
Hann var 91 árs gamall.
Gershenz hóf leikferil sinn þegar hann var 80 ára að aldri, og kom fram í sjónvarpsþáttum eins og Parks and Recreation, Mad Men, Modern Family og Raising Hope.
Áður en hann sneri sér að leiklistinni þá starfaði hann sem óperusöngvari og kórstjóri í bænahúsi gyðinga. Hann var einnig nafnkunnur hljómplötusafnari og rak hljómplötuverslunina Music Man Murray í meira en 50 ár í Los Angeles. Að undanförnu hafði hann verið að reyna að selja hljómplötusafn sitt sem telur 300.000 plötur, en tókst það ekki fyrir andlátið.
Heimildamyndin Music Man Murray var gerð um hljómplötusafn Gershenz og var sýnd á Documentary Channel.
Gershenz kom einnig fram í spjallþáttum eins og The Sarah Silverman Show, Jimmy Kimmel Live! og The Tonight Show. Hann lék einnig í kvikmyndunum I Love You Man og The Amazing Burt Wonderstone.
Gershenz var ern og við góða heilsu allt þar til hann dó skyndilega, en hann hafði nú að undanförnu verið að leika í sjónvarpsþáttunum Sullivan & Son.
Hann skilur eftir sig tvo syni, dóttur, tvö barnabörn og tvö langafabörn.