Fyrsta stikla fyrir fyrstu kvikmynd leikstjórans Dean Devlin, Geostorm, kom út í dag, en myndin fjallar um það þegar loftslagi Jarðarinnar er stjórnað af gervitunglum. Allt fer á versta veg þegar tæknin bilar, og miklar hamfarir verða um allan heim í kjölfarið.
Það ætti ekki að koma neinum á óvart sem sér stikluna að Devlin hefur m.a. unnið náið með Independence Day leikstjóranum Roland Emmerich.
Þegar myndin verður frumsýnd 20. október nk. verða liðin þrjú ár frá því að tökur hófust, en heimildir herma að 15 milljónum bandaríkjadala hafi verið eytt í endurtökur, undir stjórn Judge Dredd leikstjórans Danny Cannon og framleiðandans Jerry Bruckheimer.
Ef eitthvað er að marka stikluna er von á miklu veðravíti, bílar takast á loft, risavaxnar öldur flæða yfir borgir, fólk frýs í heil og þar fram eftir götunum.
Með helstu hlutverk fara Gerard Butler, Abbie Cornish, Alexandra Lara, Jim Sturgess, Amr Waked, Ed Harris og Andy García.
Söguþráðurinn er þessi: Þegar loftslagsbreytingar ógnar öllu lífi á Jörðinni, þá sameinast yfirvöld um allan heim um að búa til Dutch Boy verkefnið: alheimsnet gervihnatta allt í kringum jörðina, sem eru vopnuð búnaði til að hindra náttúruhamfarir. Eftir að hafa verndað plánetuna gegn hamförum í tvö ár, þá fara hlutirnir að fara úrskeiðis. Tveir bræður fá það verkefni að leysa vandamálið áður en alheimsstormur veldur óbætanlegum skaða.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan: