Í stuttu máli er „Avengers: Infinity War“ mjög vel heppnuð ofurhetjumynd og óhætt að segja að maður bíði spenntur eftir næsta kafla.
Stríðsherra frá plánetunni Titan, Thanos (Josh Brolin), sækist eftir sex töfrasteinum (Infinity stones) sem munu færa honum meiri völd en nokkur hefur búið yfir og hann hyggst ná fram fullkomnu jafnvægi í vetrarbrautinni…með tilheyrandi mannsfalli í kjölfarið. Ofurhetjurnar á jörðinni og úti í geimi hyggjast stöðva hann.
Eftir atburði „Captain America: Civil War“ (2016) tvístruðust ofurhetjurnar en taka höndum saman á ólíkum vettvöngum til að takast á við stærstu ógnina hingað til og teymið úr „Guardians of the Galaxy“ myndunum slást með í för; Iron-Man/Tony Stark (Robert Downey Jr.), Spider-Man/Peter Parker (Tom Holland) og Doctor Strange (Benedict Cumberbatch) á heimaplánetu Thanos; Þrumuguðinn Þór (Chris Hemsworth) nýtur aðstoðar Rocket (Bradley Cooper) og Groot (Vin Diesel) í geimnum við að koma höndum yfir nógu sterkt vopn til að berjast við Thanos; Star-Lord (Chris Pratt), Gamora (Zoe Saldana) og Drax (Dave Bautista) halda á plánetu þar sem þau telja að Thanos muni eltast við einn steininn; Captain America/Steve Rogers (Chris Evans), Black Panther/T‘Challa konungur (Chadwick Boseman), Hulk/Bruce Banner (Mark Ruffalo) og rest heyja baráttu sína á jörðu niðri í Afríkuríkinu Wakanda.
Víðs vegar barist og í mörg horn að líta en leikstjórabræðurnir Anthony og Joe Russo halda vel á spöðunum og ekki eina dauða mínútu að finna í tvo og hálfan tíma. Handritið er vel skrifað og þétt en gefur ofurhetjunum (flestum) nægt svigrúm til að stimpla sig inn. Thanos er ekki bara vel heppnaður og ógurlegur vargur heldur einnig fjölþættur og áhugaverður. Í ljósi hraða myndarinnar og fjölda uppákomna kemur á óvart hve miklum tíma er varið í að greina frá ásetningi hans og hvers vegna hann lítur á sig sem bjargvætt.
„Avengers: Infinity War“ er gríðarlega vel heppnað innlegg í sístækkandi Marvel heiminn en myndirnar eru alls orðnar 19 talsins. Sem fyrr er mikill og góður húmor í bland við átakanlega flott og tilkomumikil hasaratriði. Hraðinn er mikill en sagan líður ekki fyrir hann og myndin nær að hægja á sér á stundum og velta upp stórum siðferðislegum spurningum sem gefa henni meiri dýpt; s.s. fórnina sem færir velmegun og harðstjórnina sem þarf að beita til að ná jafnvægi. Þetta er ekki bara heilalaust ofurhetjuævintýri sem er verið að framreiða hér.
Sem fyrr er leikarahópurinn fyrsta flokks en rýnir heillaðist mest af „Guardians of the Galaxy“ teyminu og Hemsworth nær uppi góðum samleik með þeim. En Brolin stelur senunni sem hinn ógurlegi Thanos.
Hafa ber þó í huga að „Avengers: Infinity War“ er bara fyrri hálfleikur í þessu risaævintýri. Grunnurinn er lagður, ásetningurinn skýr og baráttan hafin en engan veginn búin.
Næsti kafli mun leiða í ljós hve sterk heildin er og best að spá sem minnst fyrir um það.