Syfy sjónvarpsstöðin bandaríska, sem sýndi hina umtöluðu hákarlamynd Sharknado fyrr í mánuðinum, og mun sýna aðra hákarlamynd, Ghost Shark, í lok ágúst á sjónvarpsstöðinni, hefur lagt inn pöntun fyrir Sharknado 2, að því er Deadline greinir frá.
Í þetta skiptið munu hákarlar sogast upp úr sjónum eins og í fyrri myndinni, en núna mun þeim rigna niður á Manhattan í New York.
Myndin verður sýnd á sjónvarpsstöðinni á næsta ári.
Sjónvarpsstöðin hefur hrint af stað samkeppni á Twitter samskiptavefnum um besta nafnið á myndina. Ef þú hefur uppástungu þá geturðu tíst á @SyfyMovies og notað #Sharknado.
„Af og til þá kemur hin fullkomni fellibylur – í sjónvarpi. Aðdáendurnir hrópa á framhaldsmynd. Eða kannski verður þetta forsaga,“ sagði Thomas Vitale hjá Syfy stöðinni í tilkynningu.
Upprunalega myndin hefur verið kölluð orgía af lélegum tæknibrellum og jafnvel enn verri frammistöðu leikara, og hefur farið sem eldur í sinu um samskiptamiðla, en það voru blaðamenn og fræga fólkið í Hollywood sem mest tjáðu sig um myndina á samskiptamiðlunum. 1,369 milljón manns horfðu á fyrri myndina samkvæmt mælingarfyrirtækinu Nielsen.