Velska Masters of Sex stjarnan Michael Sheen, þurfti að þeysa út á ritvöllinn nú um helgina eftir að hafa sagt í viðtali við breska blaðið The Times að hann ætlaði að hætta að leika í kvikmyndum til að einbeita sér að samfélagsverkefnum.
Sheen skrifaði á Twitter: „Áður en þetta verður fáránlegt, þá sagði ég í viðtalinu að ég væri að hugsa um að fara að leika minna og jafnvel hætta um stund á einhverjum tímapunkti í framtíðinni, en ekkert væri ákveðið enn,“ tísti Sheen.
Sheen skráði sig næst inn á tumblr reikning sinn og bloggaði þar um hann hafi sagt við blaðamanninn sem tók viðtalið við hann að hann „hefði látið sig samfélagsleg málefni á heimaslóð meira varða,“ en sagði ekki að hann ætlaði að hætta að leika.
Í The Times segir: „Á sama hátt og þegar það þurfti að stöðva Nasistana í Þýskalandi á fjórða áratug síðustu aldar, þá þarf að stöðva þessa bylgju sem er að vaxa,“ sagði Sheen í The Times.
Sem fyrr sagði er Sheen aðalleikarinn í sjónvarpsþáttunum Kynlífsfræðingunum, eða Masters of Sex, en þeir hafa nú lokið göngu sinni eftir fjórar þáttaraðir.
Hann leikur í einni af jólamyndum ársins, Passengers, sem frumsýnd verður hér á landi á annan í jólum. Þá eru tvær aðrar myndir væntanlegar frá leikaranum; Home Again með Reese Witherspoon í aðalhlutverkinu og mynd Mike White, Brad´s Status.
Sheen segir í viðtalinu misskilda, að þátttaka sín í uppfærslu þjóðleikhússins í Wales á The Passion, árið 2011, þar sem meira en 1.000 sjálfboðaliðar tóku þátt, hafi vakið áhuga hans á því að verða aðgerðasinni.
Sheen er vinsæll sviðsleikari, en er einnig þekktur af hvíta tjaldinu úr myndum eins og Frost/Nixon, Midnight in Paris og Twilight myndunum. Hann var tilnefndur til Golden Globes verðlaunanna fyrir Masters of Sex og Emmy verðlauna fyrir túlkun sína á Tony Blair fyrrum forsætisráðherra Bretlands, í The Special Relationship frá árinu 2010.