Jake Gyllenhaal hefur leikið margskonar hlutverk, eins og rannsóknarlögreglumann, samkynhneigðan kúreka, krukkuhaus og strák sem er fastur í plastkúlu. Hann hefur hinsvegar aldrei leikið boxara, en hugsanlega er nú röðin komin að því.
Gyllenhaal á nú í viðræðum um að leysa rappsöngvarann Eminem af hólmi í mynd Antoine Fuqua; Southpaw, samkvæmt vefmiðlinum The Wrap.
Myndin fjallar um vinstri handar hnefaleikamann sem vinnur titla en lendir í áfalli og þarf eftir það að púsla lífi sínu saman á ný og ávinna sér virðingu dóttur sinnar.
Fuqua segir í samtali við the Los Angeles Times að myndin verði ekki dæmigerð hnefaleikamynd, heldur er hún í kjarnann um mann sem er að læra að verða faðir.
Óvíst er afhverju Eminem dró sig út úr myndinni.