Tvær stuttmyndir undir leikstjórn Guðmundar Arnars Guðmundssonar, Ártún og Hvalfjörður hlutu verðlaun um nýliðna helgi. Þetta segir í fréttatilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Ártún hlaut aðalverðlaun stuttmyndahátíðarinnar Brest European Short Film Festival, sem fram fór í Brest í Frakklandi. Dómnefnd hátíðarinnar var einróma í ákvörðun sinni. Guðmundur Arnar var viðstaddur hátíðina í boði aðstandenda og veitti verðlaununum viðtöku. Þá hlaut Hvalfjörður, fyrri stuttmynd Guðmundar Arnars, sérstök dómnefndarverðlaun á ALCINE kvikmyndahátíðinni í Madrid á Spáni.
Hjónabandssæla, stuttmynd undir leikstjórn Jörundar Ragnarssonar tók einnig þátt í keppni hátíðarinnar í Brest. Hátíðin var afar vel sótt í ár þar sem tæplega 30.000 miðar seldust.
Ártún vann nýlega Gullna Skjöldinn fyrir bestu leiknu stuttmynd á Chicago International Film Festival. Guðmundur Arnar Guðmundsson leikstýrir og skrifar handritið að Ártúni en myndin er framleidd af Antoni Mána Svanssyni fyrir Join Motion Pictures í samstarfi við Sagafilm og hið danska Fourhands Film. Aðalhlutverk myndarinnar eru í höndum ungmenna sem eru að stíga sín fyrstu skref í leiklistinni: Flóki Haraldsson, Viktor Leó Gíslason, Daníel Óskar Jóhannesson, Jónína Þórdís Karlsdóttir og Heiða Ósk Ólafsdóttir.
Hvalfjörður, sem einnig er framleidd af Antoni Mána, hefur farið sigurför um heiminn síðan hún var frumsýnd á Cannes kvikmyndahátíðinni í maí 2013 og er tilnefnd til evrópsku kvikmyndaverðlaunanna sem verða tilkynnt við hátíðlega athöfn í Ríga, Lettlandi þann 13. desember næstkomandi. Þess má til gamans geta að ein af mörgum verðlaunum sem Hvalfjörður hefur hlotið var einmitt á Brest hátíðinni í fyrra, þar sem hún hlaut Evrópuverðlaun hátíðarinnar (e. Regional Council of Brittany Award for a European Film).