„Fyrir þá sem ekki komast í bíó. Í ljósi stöðunnar í samfélaginu mun GULLREGN verða aðgengileg á VOD leigum Símans og Vodafone frá og með deginum í dag. Streymið heima í stofu fyrir verð eins bíómiða og njótið ein eða með ástvinum. Fariði varlega og verið góð hvert við annað.“
Þetta skrifar Ragnar Bragason kvikmyndagerðarmaður og tilkynnir Facebook-notendum að nýjasta kvikmyndin hans, Gullregn, sé fyrr komin á skjáleigurnar en áætlað var. Útgáfa þessi fylgir sambærilegu mynstri og hefur sýnt sig erlendis, þar sem dreifingarfyrirtæki hafa ákveðið að bjóða upp á glænýjar myndir heima í stofu vegna COVID-19. Búast má við því að svipað fari fyrir öðrum útgáfum.
Gullregn er byggð á samnefndri leiksýningu sem naut mikilla vinsælda árið 2012 í Borgarleikhúsinu. Gullregn segir frá Indíönu sem býr í Fellahverfinu og lifir á bótum þótt hún sé alheilbrigð. Hún er umkringd fólki af erlendum uppruna sem hún fyrirlítur en í litlum garði við íbúðina hefur hún ræktað gullregn sem er hennar stolt og yndi. Þegar sonur hennar dúkkar upp með pólska kærustu fer heimur hennar að hrynja.
Með aðalhlutverkin fara Sigrún Edda Björnsdóttir, Halldóra Geirharðsdóttir, Hallgrímur Ólafsson og Karolina Gruszka.