Grímur Hákonarson leikstjóri Sumarlandsins, nýrrar íslenskrar kvikmyndar sem frumsýnd verður þann 3. september nk., segist í samtali við Frey Bjarnason í menningarblaði Fréttablaðsins um helgina vera spenntur fyrir frumsýningunni og því hverjar viðtökur bæði Íslendinga og útlendinga verða. „Það er dálítið spenningur yfir hvernig viðtökurnar verða. En ég hef fengið ágætis viðbrögð frá fólki sem hefur séð hana, þannig að maður er aðeins rólegri,“segir Grímur. „Ég er líka spenntur að sjá hvernig útlendingar taka henni þó svo að hún sé fyrst og fremst hugsuð fyrir íslenskan markað,“ bætir Grímur við í viðtalinu í Fréttablaðinu.
Sumarlandið er fyrsta mynd Gríms í fullri lengd en hann hefur áður getið sér gott orð fyrir stuttmyndir á borð við Bræðrabyltu og Slavek the Shit.
Sumarlandið er gamanmynd sem fjallar um fjölskyldu sem rekur álfatengda ferðaþjónustu og býður upp á miliðsfundi. Hús hennar er byggt í kringum frægan álfastein sem er heilagur í augum aðalpersónunnar Láru sem hefur yfirskilvitlega hæfileika. Þegar fjölskydan fær freistandi kauptilboð í steininn frá þýskum kaupsýslumanni vill eiginmaðurinn Óskar ólmur selja hann og það á eftir að setja allt úr skorðum.
Grímur segir í viðtalinu að Sumarlandið sem nafn myndarinner er dregið af, sé „…þessi heimur að handan sem allir fara til samkvæmt spírítisma.Við förum öll til Sumarlandsins sem er eins og himnaríki þar sem allir lifa á loftinu, senda hugskeyti á milli sín og lifa í einhverri sæluvímu.“
Með því að smella hér er hægt að sjá frétt sem við skrifuðum um Sumarlandið á dögunum og þar er tengill í stiklu úr myndinni.