Joseph Gordon-Levitt mun samkvæmt frétt í The Independent fara með hlutverk bandaríska uppljóstrarans Edward Snowden, í ævisögulegri mynd sem leikstjórinn Oliver Stone mun leikstýra.
Orðrómur hefur verið um það í nokkrar vikur að Gordon-Levitt myndi leika Snowden, en tökur myndarinnar eiga að hefjast í Munchen í Þýskalandi í janúar nk.
Myndin mun einkum hverfast um áhrif uppljóstrana Snowden á heiminn, en hann lak þúsundum trúnaðarskjala á netið. Auk þess verður fjallað um þann tíma síðan þá sem hann hefur eytt í að finna sér varanlegan samanstað utan Bandaríkjanna, en Snowden býr sem stendur í Rússlandi.
Stone, sem er þekktastur fyrir Óskarsverðlaunamyndirnar Platoon og Born on the Fourth of July, skrifaði sjálfur handritið og byggði það á tveimur bókum um Snowden – The Snowden Files: The Inside Story of the World´s Most Wanted Man, eftir Luke Harding, og Time of the Octopus, eftir Anatoly Kucherena.
Gordon-Levitt fetar með þessu hlutverki nýjar slóðir, en hann er þekktur fyrir leik í spennutryllum eins og The Dark Knight Rises, Looper og Inception, og rómantískum gamanmyndum eins og 500 Days of Summer.