Gjörningurinn sem Frakkinn Philippe Petit framdi 7. ágúst árið 1974 verður lengi í minnum hafður og örugglega aldrei leikinn eftir. Petit gerði sér nefnilega lítið fyrir og strengdi vír á milli tvíburaturnanna í New York árið 1974 og dansaði þar í tæpa klukkustund áður en hann var handtekinn.
Leikarinn Joseph Gordon-Levitt mun fara með hlutverk Petit í nýrri mynd frá verðlaunaleikstjóranum Robert Zemeckis, sem hefur gert myndir á borð við Forrest Gump og Cast Away.
Með önnur hlutverk í myndinni fara m.a. Ben Kingsley, Charlotte Le Bon og Ben Schwartz.
Í myndinni verður farið í gegnum undirbúning Petit að gjörninginum, sem var að mati margra meiri áhætta heldur en gjörningurinn sjálfur.
Árið 2008 var gerð heimildarmynd um gjörninginn og hét hún einfaldlega Man on Wire. Sú mynd fékk mikla athygli og var sýnd á öllum helstu kvikmyndahátíðum heims.
Í dag var sýnd fyrsta stiklan úr myndinni og má sjá hana hér að neðan.