Kvikmyndin The Room, sem er þekkt fyrir að vera ein versta mynd sem gerð hefur verið, verður sýnd í Bíó Paradís þann 22. janúar nk. kl. 20.
Myndin kom út árið 2003 og var sýnd við einstaklega dræmar viðtökur í Los Angeles (flestir gestir vildu fá endurgreitt áður en hálftími var liðinn) þar sem ungir kvikmyndaáhugamenn rákust á hana og sáu húmorinn í hörmungunum. Orðspor hennar dreifðist og er hún í dag orðin að einni bestu miðnæturskemmtun sem kvikmyndahúsin hafa upp á að bjóða, eins og segir í tilkynningu frá Bíó Paradís.
„Þar draga áhorfendur hana sundur og saman í háði á sama tíma og þeir undra sig á því hvernig hægt er að gera svona góða vonda mynd.“
Myndin sjálf fjallar um Johnny, leiknum af leikstjóra, handritshöfundi og framleiðanda myndarinnar, Tommy Wiseau, og brösugt samband hans við kærustu sína, Lisu, og besta vin sinn Mark (ó hæ! Mark), sem færir hann að lokum á ystu nöf andlega.
Wiseau vann mikið með arfleifð James Dean og Tennesee Williams við gerð myndarinnar, en allar kvikmyndalegar vísanir og úrvinnsla hefða fara, vægast sagt, fyrir ofan garð og neðan í höndum herra Wiseau, eins og segir einnig í tilkynningunni.
Björgvin Franz Gíslason, leikari, og einn af aðstandendum sýningarinnar, heillaðist af költ kvikmyndum þegar hann bjó í Minneapolis í Bandaríkjunum. „Á einni miðnætursýningunni á The Room varð hann þess heiðurs aðnjótandi að berja augum tvo aðalleikara myndarinnar, Tommy Wiseau og GregZ Sestero, þar sem þeir svöruðu spurningum úr sal og árituðu varning fyrir æsta aðdáendur.“
Gunnar Tómas Kristófersson er kvikmyndafræðingur og doktorsnemi og stundakennari í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands. Hann hefur sérstakan áhuga á költmyndum og sér í lagi The Room og skrifaði MA ritgerð um költmyndir ásamt því að kenna námskeið um þær við HÍ haustið 2015.
Björgvin og Gunnar Tómas hafa áður stjórnað þátttökusýningum á The Room, bæði í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri og munu meðal annars kenna áhorfendum hvað felst í “lifandi” þáttöku kvikmyndarinnar ásamt því að útskýra í stuttu máli hvað það er sem gerir The Room að költi þar sem velt verður vöngum yfir því hvað í ósköpunum Tommy Wiseau sé.