„Það er erfitt að sætta sig við það að eyða hálfri ævinni í að bjarga mannslífum en geta svo ekkert gert þegar kemur að því að bjarga manns eigin barni,“ segir Baltasar Kormákur í hlutverki sínu í fyrstu stiklu úr nýrri íslenskri bíómynd, Eiðurinn sem frumsýnd var í dag.
Myndin verður frumsýnd hér á landi 9. september nk. og um svipað leiti á kvikmyndahátíðinni í Toronto í Kanada, TIFF. Auk þess að leika aðalhlutverk í myndinni, þá leikstýrir Baltasar myndinni og framleiðir hana.
Eins og segir á mbl.is þá er þetta í áttunda sinn sem verk eftir Baltasar er valið inn á hátíðina, sem er ein hinna stóru svonefndu A-hátíða. Eiðurinn verður sýndur í flokki Special Presentations í Toronto og verður frumsýndur í aðalkvikmyndahúsi hátíðarinnar og á besta sýningartíma. Í þessum flokki eru athyglisverðar myndir sýndar frá leiðandi kvikmyndagerðarmönnum í heiminum.
Myndin segir frá hjartaskurðlækninum Finni sem þykir skara fram úr í starfi sínu. Þegar hann áttar sig á að dóttir hans er komin í neyslu og kynnir þekktan dópsala fyrir fjölskyldunni sem nýja kærastann koma fram brestir í einkalífinu. Finnur ákveður að taka í taumana og er staðráðinn í að koma dótturinni á réttan kjöl, hvað sem það kostar.
Hera Hilmarsdóttir leikur dótturina Önnu og Gísli Örn Garðarsson er í hlutverki kærastans.
Handritið er byggt á upprunalegri sögu Ólafs Egils Egilssonar en er skrifað af þeim Ólafi og Baltasar.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og nýtt plakat þar fyrir neðan: