Tökum er lokið á myndinni sem margir bíða spenntir eftir, Independence Day: Resurgence, en frumsýning er áætluð 24. júní 2016. Þá verða einmitt liðin nær nákvæmlega 20 ár frá því fyrsta myndin var frumsýnd.
Enn hefur engin stikla birst úr myndinni, en leikstjórinn, Roland Emmerich, hefur gefið mönnum smá innsýn í það sem koma skal í samtölum við blaðamenn, og nú síðast við Collider kvikmyndavefinn.
Í söguþræði myndarinnar sem gefinn var út sl. sumar er sagt að mannkynið hafi alltaf vitað að geimverurnar myndu snúa aftur, og leikstjórinn segir að geimverurnar sem voru drepnar í fyrstu myndinni, hafi einungis verið eins og eitt af hýðunum ( hive ).
„Þetta var eins og eitt af hýðunum, þetta færist úr stað. [hlær] Það sem við gerum núna, er að við reyndum að víkka út heiminn, líka. Þetta er ekki eins einfalt og síðast af því að það er ekki hægt. Þetta snýst líka um hvað gerist á Jörðinni þegar við vitum að þær munu koma aftur. Við fengum 20 ár til að undirbúa okkur og jafna leikinn.“
Í opinbera söguþræðinum segir að leiðtogar heimsins hafi unnið saman að því að nota geimverutækni til að búa til gríðarlegt varnarkerfi til að vernda jörðina.
„Til allrar óhamingju, þá ráða geimverurnar nú yfir enn háþróaðri tækni en áður, og Jörðin þarf að reiða sig á hugvitsemi nokkurra hugrakkra manna og kvenna til að bjarga Jörðinni frá gereyðingu.“
Aðalleikarar fyrri myndarinnar snúa flestir aftur, fólk eins og Jeff Goldblum, Bill Pullman, Judd Hirsch, Vivica A. Fox og Brent Spiner, auk nýrra andlita.