Fyrsta stiklan fyrir nýjustu mynd franska leikstjórans Luc Besson kom út í dag, ævintýra-vísindaskáldsöguna Valerian and the City of a Thousand Planets, sem byggð er á vinsælum samnefndum teiknimyndasögum eftir Pierre Christin og Jean-Claude Mézières.
Eins og sjá má á stiklunni þá gerist þetta í einhverskonar framtíðarheimi, þar sem geimverur af öllum stærðum og gerðum koma við sögu, og minnir stundum á Star Wars.
Mikið fé var lagt í myndina, eða um 180 milljónir Bandaríkjadala, og því er ljóst að menn eru vongóðir um að myndin muni slá í gegn og heilla bíógesti um allan heim.
Myndin fjallar um Valerian og Laureline, en þau eru sérstakir útsendarar nýlendna manna sem eru hlutar af kerfi sem passar upp á reglu í stjörnukerfinu. Þau eru send af yfirmanni sínum, Filitt, til hinnar gríðarstóru borgar Alpha, þar sem búa þúsundir mismunandi tegunda af geimverum alls staðar að úr alheiminum. Þó að allt sé gott á yfirborðinu þá eru ill öfl skammt undan, sem stofna mannkyni öllu í hættu.
Með aðalhlutverk fara Dane DeHaan, Cara Delevingne, Clive Owen, Rihanna, Ethan Hawke og John Goodman.
Myndin kemur í bíó hér á landi 21. júlí nk., sama dag og nýjasta mynd Christopher Nolan, Dunkirk.
Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og nýtt plakat þar fyrir neðan: