Geimfeðgamynd með nýja stiklu og plakat

Framleiðslufyrirtækið 20th Century Fox hefur birt nýja stiklu og plakat fyrir geimmyndina Ad Astra, með Brad Pitt í aðalhlutverkinu. Kvikmyndin verður frumsýnd í september næstkomandi.

Geimfari.

Eins og fram kemur í kynningum á myndinni, þá er hér ekki á ferðinni dæmigerð geim-hamfaramynd, þar sem „einungis“ örlög alls heimsins eru í hættu, heldur er miklu meira en það eitt í gangi undir yfirborðinu.

Pitt leikur hér geimfarann Roy McBride, sem ferðast út í ystu myrkur sólkerfisins til að finna föður sinn, sem er þar týndur. Í ferðinni kemst hann á snoðir um ráðgátu, sem ógnar framtíð jarðarinnar okkar, og sannar fyrir honum að faðir hans er kannski ekki allur þar sem hann er séður.  Ferðin aukinheldur leiðir í ljós leyndarmál sem ógna framtíð mannkyns, og stöðu okkar í alheiminum.

Í myndinni sameinast þeir á ný, félagarnir James Gray og Brad Pitt, en þeir unnu saman í The Lost City of Z. Pitt lék ekki í þeirri mynd, en var í hlutverki framleiðanda.

James Gray lét nýverið hafa eftir sér að hann og Pitt vildu gera eitthvað alveg nýtt í þessari mynd. Þetta væri vissulega dæmigerð “feðgamynd” en það væri ekki allt.

“Við grófum djúpt, og vildum hrista upp í þessari tegund kvikmynda.  Þú vilt hafa myndina dramatíska, og taka á djúpvitrum hlutum, af því að þetta er einmitt sá flokkur kvikmynda sem býður upp á það. Það skrýtna er að kvikmyndin er orðin mjög persónuleg fyrir mér, sem er held ég einmitt sú stefna sem þú vilt að hlutirnir taki, ef þú vilt gera eitthvað sem skiptir máli,” sagði James Gray.

Aðrir helstu leikarar eru Tommy Lee Jones, Liv Tyler, Ruth Negga, Donald Sutherland, Kimberly Elise og Jamie Kennedy.