Fyrstu plakötin fyrir hina íslensku XL

Fyrstu plakötin fyrir íslensku myndina XL eru komin út og að mati undirritaðs lofa þau góðu. XL skartar þeim Ólafi Darra Ólafssyni, Maríu Birtu og Þorsteini Bachmann í aðalhlutverkum, en Marteinn Thorsson leikstýrir myndinni. Marteinn er hvað þekktastur fyrir að hafa leikstýrt Rokland sem skartaði einnig Ólafi Darra í aðalhlutverki, en Rokland kom út í fyrra.

XL er blanda af The Hangover, Fear and Loathing in Las Vegas og Memento. Fjölskyldumaðurinn fyrrverandi, flagarinn óstýriláti og áfengisþyrsti þingmaðurinn Leifur Sigurðarson (Ólafur Darri Ólafsson) er skikkaður í meðferð af vini sínum og yfirmanni, forsætisráðherra Íslands (Þorsteinn Bachmann) – en áður en hann lætur flengja sig opinberlega heldur Leifur vinum sínum matarboð.

Á meðan á því stendur kynnumst við gestum og gestgjafa betur og lærum um dramatíska og grátbroslega fortíð hópsins og sérstaklega ástarsamband Leifs við hina tvítugu Æsu (María Birta Bjarnadóttir) sem jafnframt er vinkona dóttur hans. Eftir því sem Leifur djúsar meira koma fleiri leyndarmál í ljós uns það er tímabært að drífa sig heim, eða hvað? Aðeins þeim sem hafa aldur til að kjósa þingmanninn er boðið í partýið.

Plakötin sýna m.a. karakter Ólafs Darra vel í glasi, sem ætti að gefa okkur nokkra innsýn í stíl myndarinnar. Magnús Elvar Jónsson hannaði plakötin.

XL kemur í bíó í janúar 2013.

Stikk: