Fyrsta ljósmyndin úr London has Fallen, framhaldinu af Olympus has Fallen, var í dag birt á vef Empire kvikmyndaritsins. Í fyrri myndinni lék Gerard Butler fyrrum öryggisvörð í Hvíta húsinu í Washington í Bandaríkjunum, Mike Banner, sem er óvart staddur í húsinu þegar hryðjuverkamenn gera árás á bygginguna.
Myndin féll það vel í kramið hjá áhorfendum að ráðist var í gerð framhaldsmyndar, sem nú er væntanleg í bíó innan skamms.
Sjáðu fyrstu ljósmyndina sem birtist úr myndinni hér fyrir neðan:
Á myndinni sést Butler tukta til einhvern óþokka ( að öllum líkindum ) í neðanjarðarlestarstöð í Lundúnaborg.
„Þetta er skemmtileg sería,“ segir Butler í samtali við Empire. „Maður fær að gera fullt af grjóthörðum hlutum, en einnig er margt fyndið líka.“
Söguþráðurinn er þannig í meginatriðum að Banning þarf að bjarga málunum, með hjálp frá félaga í MI6 leyniþjónustunni bresku, sem Charlotte Riley leikur, þegar Bandaríkjaforseti, sem Aaron Eckhart leikur, verður fyrir árás við útför forsætisráðherra Bretlands. Aðrir þjóðarleiðtogar eru einnig í hættu.
Angela Bassett og Morgan Freeman eru einnig mætt aftur til leiks, Angela sem yfirmaður leyniþjónustu Bandaríkjanna og Freeman sem forseti bandaríska þingsins.
Radha Mitchell, Jackie Earle Haley, Melissa Leo, Robert Forster og Colin Salmon leika einnig í myndinni.
Frumsýning verður 2. október samkvæmt Empire.