Kitl-plakat fyrir myndina King Conan, eða The Legend of Conan, eins og hún heitir öðru nafni, var frumsýnt á kvikmyndahátíðinni í Cannes nú um helgina, en það eru kvikmyndaverin Paradox Entertainment og Universal Pictures sem standa að myndinni.
Í myndinni snýr Arnold Schwarzenegger aftur í hlutverkinu sem hann sló í gegn í upphaflega í Hollywood, en myndin er framhald myndarinnar Conan The Barbarian frá árinu 1982.
Áætlað er að tökur hefjist síðar á þessu ári, eða þegar tökum á Terminator endurræsingunni lýkur, sem stundum er kölluð Terminator: Genesis.
Ef rýnt er í myndina virðist sem Conan sé þarna nýkominn af vígvellinum, enda andlitið þakið blóðslettum.