Framhald framleiðslufyrirtækjanna STXfilms og Lakeshore Entertainment á hrollvekju William Brent, The Boy, með Lauren Cohan og Rupert Evans í aðalhlutverkunum, byrjaði í tökum fyrr á þessu ári í Vancouver, í Bresku Kólumbíu í Kanada.
Upprunalega myndin kostaði aðeins um 15 milljónir bandaríkjadala, en tekjur af sýningum hennar um allan heim skiluðu miklu gróða, og voru um 68 milljónir dala. Framhaldsmynd kemur því lítið á óvart.
Og nú hefur fyrsta ljósmyndin úr myndinni verið opinberuð, ásamt frumsýningardegi í Bandaríkjunum, en myndin er ekki komin með frumsýningardag hér á Íslandi. Ljósmyndin er hér fyrir neðan:
Samkvæmt MovieWeb mun The Boy 2 verða frumsýnd á sumri komanda, nánar tiltekið 26. júlí nk.
Til gamans má geta þess að þennan sama dag verður önnur mynd sem margir bíða spenntir eftir, Once Upon a Time in Hollywood, eftir Quentin Tarantino, frumsýnd. The Boy 2 fær því alvöru samkeppni þessa frumsýningarhelgi vestanhafs.
Handrit framhaldsins skrifar sá sami og gerði upprunalegu myndina Stacey Menear. Myndin segir frá ungri fjölskyldu sem flytur inn í Heelshire Mansion stórhýsið, án þess að þekkja hina hræðilegu sögu hússins.
Þegar allir eru búnir að koma sér fyrir, þá eignast yngsti sonurinn óþægilegan vin, sem er, jú, þið gátuð ykkur rétt til, engin önnur en hin raunverulega útlítandi dúkka Brahms.
Lauren Cohan og Rupert Evans snúa ekki aftur í aðalhlutverkunum, en í staðinn mun Katie Holmes ( Batman Begins ) leika aðalhlutverkið ásamt Christopher Convery (The Girl in the Spider’s Web) sem sonurinn. Owain Yeoman (The Belko Experiment) verður eiginmaður Holmes og Ralph Ineson (Harry Potter and the Deathly Hallows,The Witch) leikur hinn dularfulla Joseph.
The Boy leikstjórinn William Brent Bell (Stay Alive, The Devil Inside, Wer) snýr aftur í leikstjórnarstólinn.
Fyrir þá sem vilja rifja upp söguþráð fyrri myndarinnar þá er hann eitthvað á þessa leið: Greta er bandarísk kona sem flýr erfiða fortíð. Hún tekur að sér að passa 8 ára son auðugra foreldra á Englandi, á meðan hjónin fara í langt frí. Þegar hún kemur að afviknu heimilinu þá kemst hún að því að eitthvað skrýtið er á seiði. Það er ekki bara að hjónin láta Greta fá langan lista af leiðbeiningum með stráknum heldur er sonurinn Brahms, ekki raunverulegur strákur, heldur postulínsdúkka í fullri stærð! Hjónin fara í fríið og Greta er nú ein og yfirgefin með Brahms. Í hvert skipti sem hún fer ekki eftir leiðbeiningunum gerist eitthvað skrýtið. Hún kynnist manni sem ber út nýlenduvörurnar, Malcolm, sem segir henni frá hræðilegum hlutum sem gerðust hjá Heelshire fjölskyldunni, og Greta kemst að því að hún var í raun ekki bara ráðin, heldur sérvalin til starfans … .