Kvikmyndin Fúsi eftir Dag Kára Pétursson hefur verið tilnefnd fyrir Íslands hönd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár, en verðlaunin verða afhent í Hörpu í Reykjavík 27. október nk.
Á síðasta ári bar mynd Benedikts Erlingssonar, Hross í oss, sigur úr býtum.
Í tilkynningu frá Græna ljósinu segir að verðlaunamyndin þurfi að vera runnin undan rifjum Norrænnar menningar og af miklum listrænum gæðum. „Hún á einnig að vera framúrskarandi hvað varðar listrænan frumleika og flétta saman á fágaðan máta undirstöðuatriðum kvikmyndalistarinnar svo úr verði sannfærandi heild.“
Eftirfarandi myndir eru tilnefndar til verðlaunanna:
Stille hjerte (Danmörk): Leikstjóri Bille August, handritshöfundur Christian Torpe og framleiðandi Jesper Morthorst
He ovat paenneet (Þau hafa flúið) (Finnland): Leikstjóri J-P Valkeapää, handritshöfundur Pilvi Peltola og framleiðandi Aleksi Bardy
Fúsi (Ísland): Leikstjóri/handritshöfundur Dagur Kári Pétursson og framleiðendur Baltasar Kormákur og Agnes Johansen
Mot naturen (Noregur): Leikstjóri/handritshöfundur Ole Giæver og framleiðandi Maria Ekerhovd Gentlemen (Svíþjóð): Leikstjóri Mikael Marcimain, handritshöfundur Klas Östergren og framleiðandi Fredrik Heinig.