Sambíóin frumsýna spennumyndina Welcome to the Punch á föstudaginn næsta, þann 27. september. „Frá framleiðandanum Ridley Scott kemur frábær spennumynd með James McAvoy og Mark Strong í aðalhlutverkum,“ segir í tilkynningu frá Sambíóunum en þar segir einnig að margir hafi líkt myndinni við bresku útgáfuna af myndinni Heat eftir Michael Mann. Leikstjóri og handritshöfundur er Eran Creevy sem gert hefur eina mynd áður, myndina Shifty árið 2008.
Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:
Breskur glæpamaður sem faldi sig á Íslandi snýr aftur til Lundúna eftir að sonur hans er skotinn og gefur um leið lögreglumanninum Max Lewinsky eitt tækifæri enn til að handsama sig.
Þrjú ár eru liðin síðan hinn eitursnjalli Jacob Sternwood framdi bíræfið rán í London ásamt félögum sínum. Minnstu mátti þó muna að lögreglumaðurinn Max Lewinsky næði að hafa hendur í hári hans en viðskiptum þeirra í það skiptið lauk með því að Max lá óvígur eftir og Jacob komst undan.
Dag einn er komið að ungum manni sem liggur í blóði sínu eftir að hafa verið skotinn. Í ljós kemur að þetta er Ruan Sternwood, sonur Jacobs, og að hann hefur verið svikinn af fyrrverandi félögum sínum.
Þegar Jacob fréttir þetta, þar sem hann er í felum á Íslandi, ákveður hann að snúa aftur til Lundúna. Hann veit auðvitað að þar með er hann um leið að ganga beint í gin ljónsins og að uppgjör við Max er óumflýjanlegt …
Aðalhlutverk: James McAvoy, Mark Strong, Andrea Riseborough, Johnny Harris, David Morrissey, Elyes Gabel og Daniel Mays
Leikstjórn: Eran Creevy
Bíó: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Akureyri og Keflavík
Aldurstakmark: 16 ára
Fróðleiksmolar til gamans:
• Breska kvikmyndatímaritið Empire gefur Welcome To the Punch fjórar stjörnur og fína umsögn sem lýkur með þeirri niðurstöðu að myndin sé „A confident, ambitious and action-rich Brit thriller.“
• Einn af framleiðendum myndarinnar er Ridley Scott.