Frumsýning: Now You See Me

now you see meSambíóin frumsýna myndina Now You See Me á miðvikudaginn 5. júní í Sambíóunum Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri, Ísafjarðarbíó og Bíóhöllin Akranesi.

Í tilkynningu frá Sambíóunum segir að um sé að ræða „óvæntantasta smell sumarsins“.

Myndin fjallar um hóp eitursnjallra töframanna sem fremur magnað bankarán í miðri sýningu og dreifir ránsfengnum til áhorfenda. Hvernig var þetta gert?

Það er stór hópur kunnra leikara sem fer með aðalhlutverkin í þessari nýjustu mynd leikstjórans Louis Leterrier sem á að baki myndir eins og Clash of the Titans og The Incredible Hulk.

Sjáðu stiklu úr myndinni hér fyrir neðan:

Þau Michael, Jack, Merritt og Henley eru töframenn sem hafa myndað töfragengið The Four Horsemen og sett á svið magnaða sýningu í Vegas sem fær áhorfendur til að standa á öndinni. Í lok atriðisins tilkynna þau agndofa áhorfendum að nú muni þau fremja bankarán í Evrópu og ekki nóg með það heldur ætla þau að láta áhorfendur njóta peningana sem skömmu síðar tekur hreinlega að rigna yfir salinn.

now-you-small-me-001

FBI-lögreglumanninum Dylan Hobbs er falið að rannsaka málið en hann rekur sig strax á veggi því honum er gjörsamlega ómögulegt að skilja, og því síður sanna, hvernig fjórmenningarnir sem staddir voru í Las Vegas og fyrir allra augum gætu hafa framið bankarán á sama tíma í annarri heimsálfu.

En hér er auðvitað ekki allt sem sýnist …

Aðalhlutverk: Jesse Eisenberg, Morgan Freeman, Mark Ruffalo, Woody Harrelson, Isla Fisher, Michael Caine og Dave Franco

Leikstjórn: Louis Leterrier

Sýningarstaðir: Sambíóin Álfabakka, Egilshöll, Kringlunni, Keflavík og Akureyri, Ísafjarðarbíó og Bíóhöllin Akranesi

Aldurstakmark: 12 ára

Fróðleiksmolar til gamans: 

• Upphaflega stóð til að þeir Philip Seymour Hoffman, Jim Carrey, Hugh Grant, Sacha Baron Cohen og Colin Firth færu með aðalhlutverkin í myndinni, en að lokum var ákveðið að ráða yngri leikara í þau.
• Handrit myndarinnar er eftir þá Boaz Yakin og Ed Solomon, en þeir eiga að baki handrit vinsælla mynda eins og Safe og Men in Black.