Sena frumsýndir Django Unchained, nýjustu mynd bandaríska leikstjórans Quentin Tarantino, á föstudaginn næsta, þann 18. janúar. Öll bíóin forsýna myndina duglega næstu tvo daga, þ.e. á miðvikudag og fimmtudag og er miðasala hafin á allar forsýningarnar.
Sjáðu stiklu úr myndinni hér að neðan:
„Hér er meistari Tarantino kominn í villta vestrið með frábæra leikara sér við hlið. Myndin gerist í suðurríkjum Bandaríkjanna tveimur árum fyrir borgarastríðið. Jamie Foxx leikur þrælinn Django sem á baki blóðug samskipti við fyrrum eigendur sína; Brittle bræðurnar. Mannaveiðarinn Dr. King Schultz (óskarsverðlaunahafinn Christoph Waltz) er á höttunum á eftir þeim og Django er sá eini sem getur bent honum á þá. Schultz kaupir Django með því loforði að hann öðlist frelsi sitt þegar Brittle bræðurnir eru handsamaðir – dauðir eða lifandi,“ segir í fréttatilkynningu frá Senu.
Myndin er nú þegar búin að hljóta ýmis verðlaun og verðlaunatilnefningar. Hún fékk m.a. fimm tilnefningar til Golden Globe verðlaunanna, og hlaut tvenn Golden Globe verðlaun, fyrir handrit og Christoph Waltz fyrir meðleik, og fimm Óskarstilnefningar.
Django Unchained er frumsýnd á föstudaginn í Smárabíói, Háskólabíói, Laugarásbíói, Sambíóunum Egilshöll og Borgarbíói Akureyri.