Sambíóin frumsýna nýjustu mynd Gerard Butlers, Chasing Mavericks, á föstudaginn næsta, 18. janúar. Butler er jafnframt framleiðandi myndarinnar. Myndin segir sanna sögu eins merkasta brimbrettakappa síðari ára.
Sjáðu stiklu úr myndinni hér að neðan:
Chasing Mavericks segir sanna sögu brimbrettameistarans Jays Moriarity sem aðeins 15 ára að aldri byrjaði að fást við stærstu og hættulegustu öldur á jörðu, staðráðinn í að sigrast á þeim.
Það er nýstirnið Jonny Weston sem fer með hlutverk Jays Moriarity í Chasing Mavericks og Gerard Butler sem leikur læriföður hans, annan brimbrettasnilling, Frosty Hesson.
„Myndin er gerð með aðstoð færustu brimbrettakappa heims og inniheldur mögnuðustu brimbrettasenur sem kvikmyndaðar hafa verið,“ segir í tilkynningu frá Sambíóunum.
Jay Moriarity bjó í Santa Cruz í Kaliforníu og heillaðist snemma af brimbrettaíþróttinni. Áhugi hans vaknaði hins vegar fyrir alvöru þegar hann sá í fyrsta sinn stóröldur sem kenndar eru við staðinn Mavericks í Kaliforníu og myndast á tólf vikna tímaskeiði ár hvert. Þessar öldur eru hins vegar stórhættulegar enda afar kraftmiklar og það verður aldrei á færi nema sérþjálfaðra meistara í íþróttinni að eiga við þær.
En Jay var ákveðinn í að verða einn af þessum meisturum og fékk brimbrettasnillinginn Frosty Henson til að þjálfa sig fyrir átökin. Á milli þeirra myndaðist síðan einstök vinátta sem náði langt út fyrir sjálfa íþróttina.
Aðalhlutverk: Gerard Butler, Jonny Weston, Elisabeth Shue, Abigail Spencer, Levin Rambin og Taylor Handley
Leikstjórn: Michael Apted og Curtis Hanson
Sýningarstaðir: Sambíóin Egilshöll, Álfabakka, Keflavík og Akureyri
Aldurstakmark: 7 ára
Nokkrir punktar til gamans:
• Á meðal þekktra brimbrettameistara sem koma fram í myndinni og aðstoðuðu við gerð hennar má nefna þá Greg Long, Peter Mel og Zach Wormhoudt.
• Curtis Hanson veiktist þegar þrjár vikur voru eftir af upptökum Chasing Mavericks og Michael Apted tók við. Þess vegna eru þeir báðir nefndir sem leikstjórar myndarinnar.