Fyrr á árinu sendi nýgræðingurinn Andrew Will frá sér stuttmynd í formi stiklu til að vonandi selja hugmyndina sína, The Prototype. Hún fjallaði um herra Alex Maxwell sem lifði fyrir vísindalegar rannsóknir á bæði mennsku og vélrænu þróuninni, en hann hefur skapað frumgerð fyrir herinn sem hugsar sjálfstætt. Aðalfókus myndarinnar er flótti frumgerðarinnar sem er hundelt af bandarísku þjóðinni.
Þó ekki sú frumlegasta, þá er hugmyndin nógu áhugaverð og stiklan leit bara frekar vel út og sjálfur hélt ég lengi að þetta væri hreinlega mynd í fullri lengd í bígerð.
Sem betur fer er hún ekki lengur bara stutt söluræða, því í vikunni tilkynntu FilmNation Entertainment að fyrirtækið myndi veita fjármagnið sem þarf til að gera myndina að veruleika, en framleiðendur Act of Valor, Bandito Brothers, munu sjá um framleiðsluna. Glen Basner hjá FilmNation talaði stuttlega um myndina: „Ég elskaði stuttmyndina hans Andrews og sá strax möguleikann á spennandi og flottri kvikmynd. Eftir að hafa unnið með Bandito að Act of Valor, veit ég að þetta verður spennumynd sem beðið verður eftir með tilhlökkun.“
Myndin verður gerð undir 40 milljónum dollara og strax er fólk farið að bera verkefnið saman við District 9. Andrew Will mun auðvitað leikstýra útgáfunni sem kemur upp á hvíta tjaldið, en áheyrnaprufur fara bráðlega að hefjast.
Þrátt fyrir að stiklan vilji meina að The Prototype komi á næsta ári, þá eru líkur á því að þetta hafi einungis verið gert fyrir tímans sök og að raunverulegi útgáfudagurinn sé lengra í burtu; vonum ekki.