Franskir uppvakningar í metsöluþáttum frönsku sjónvarpsstöðvarinnar Canal Plus, The Returned, ætla að leggja Asíu undir sig. Þættirnir sem heita Les Revenants, á frummálinu, hafa verið seldir til nokkurra Asíulanda samkvæmt frétt The Hollywood Reporter, eða til Taílands, Suður Kóreu, Hong Kong og Taívan.
Þættirnir hafa áður verið seldir til um 40 landa, þar á meðal til Bretlands og Bandaríkjanna.
Auk þess að njóta mikilla vinsælda meðal áhorfenda, þá hafa þeir einnig fengið mjög góðar viðtökur gagnrýnenda, og fengu nýverið verðlaun sem bestu dramaþættir á alþjóðlegu Emmy verðlaunahátíðinni í New York.
Bandarísk endurgerð þáttanna er í undirbúningi.
The Returned gerast í litlu þorpi í Ölpunum, í skugga stórrar stíflu. Hópur manna og kvenna reyna með erfiðismunum að komast heim í þorpið, en fólkið veit ekki að það hefur verið dautt í mörg ár og enginn á von á því til baka.