Franska kvikmyndahátíðin er nú haldin í 18. skipti og stendur frá föstudeginum 26. janúar til 4. febrúar í Háskólabíói í Reykjavík. Á Akureyri stendur hún frá 28. janúar til 3. febrúar. Tíu myndir eru á boðstólum, þar af ein kanadísk.
Þessi kvikmyndahátíð er fastur liður í menningarlífi Reykjavíkur og Akureyrar og er jafnan fyrsti stóri menningarviðburður ársins. Á hátíðinni er sýndur þverskurður af nýjum frönskum myndum og myndum frá hinum frönskumælandi heimi og af nógu er að taka því bara í Frakklandi eru framleiddar um 300 kvikmyndir á ári.
Ógnir í sænskum skógi, hrakföll í franskri höll, spurning um líf eða dauða, styrjöld og börn, Afríka-Evrópa… Franska kvikmyndahátíðin kemur víða við og það er sama hvort menn vilja gráta úr hlátri, nötra af spennu, syrgja og gleðjast eða fylla höfuðið af nýrri reynslu, kvikmyndahátíðin spannar allan skalann.
Opnunarmyndin er Svona er lífið (Le Sens de la fête) og hún er eftir sömu höfunda og gerðu Intouchables sem sló mjög eftirminnilega í gegn á Íslandi og um allan heim árið 2012. Í Frakklandi hafa meira en þrjár milljónir áhorfenda séð þessa nýju gamanmynd, sem aldrei missir dampinn og menn geta ekki annað en hrifist með, og skartar líka úrvali leikara.
Dagskrá hátíðarinnar má sjá með því að smella HÉR.