Heiðursverðlaun Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, RIFF, verða veitt
í 10. sinn í dag. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri, mun veita
indversk-kanadísku kvikmyndagerðarkonunni Deepu Mehta verðlaunin við
hátíðlega athöfn í Ráðhúsi Reykjavíkur í dag kl. 16.45.
Mehta er stödd hér á landi sem heiðursgestur RIFF og verður hún með
meistaraspjall í Norræna húsinu í dag, mánudag, kl. 13 þar sem hún ræðir
kvikmyndaleikstjórn og aðferðir sínar í kvikmyndagerð, og er aðgangur
ókeypis. Þá fundaði hún með félagi íslenskra kvenna í kvikmyndagerð, WIFT, um helgina en félagið var stofnað á RIFF fyrir 10 árum síðan, og kynnti sér
íslenska náttúru og mögulega tökustaði.
„Heiðursverðlaunin eru veitt þeim sem hafa skarað fram úr í kvikmyndagerð,“
segir Hrönn Marinósdóttir, stjórnandi RIFF. „Eitt af meginmarkmiðum
hátíðarinnar er að varpa ljósi á nýja og framsækna kvikmyndalist, en við
viljum einnig gera eldri verkum og höfundum þeirra skil. Það er mikilvægt að
þekkja hina umfangsmiklu og fjölbreyttu sögu kvikmyndalistarinnar líka.“
Þrjár kvikmyndir Deepu Mehta, Góðu strákarnir, Miðnæturbörnin og
Birtingarmynd ofbeldis, eru sýndar á hátíðinni. Sú síðastnefnda var
Evrópufrumsýnd á RIFF í gærkvöldi, en hún var heimsfrumsýnd fyrir aðeins
þremur vikum á kvikmyndahátíðinni í Toronto og hefur hlotið mikla og
verðskuldaða athygli. Myndin fjallar á nýstárlegan hátt um hina alræmdu
hópnauðgun í Dehli árið 2012 og verður hún sýnd nokkrum sinnum á hátíðinni.
Í ár hlýtur kvikmyndaleikstjórinn Darren Aronofsky einnig heiðursverðlaun
RIFF og verða þau veitt á miðvikudag af hr. Guðna Th. Jóhannessyni, forseta
Íslands, á Bessastöðum.
Hátíðin stendur til 9. október.