Fötluð ofurhetja á leiðinni

Teiknimyndasöguhöfundurinn Gerry Kissell og leikarinn Kurt Yaeger úr þáttunum Sons of Anarchy safna nú fé á söfnunarsíðunni Kickstarter, til að búa til kvikmynd um fatlaða ofurhetju.

vindi

Kissell sem er best þekktur fyrir störf sín fyrir IDW Publishing fyrirtækið, ætlar að safna 8.000 Bandaríkjadölum í gegnum Kickstarter til að framleiða og leikstýra mynd eftir teiknimyndasögunni „Vindicated, Inc,“ sem er teiknimyndasaga um Delta Force hermann sem vantar á tvo útlimi. Hermaðurinn gerist sjálfskipaður löggæslumaður, þrátt fyrir fötlun sína og þrátt fyrir að hann þjáist af áfallastreituröskun ( PTSD – post-traumatic stress disorder).

Kissell vonast eftir að hefja framleiðslu myndarinnar strax á þessu ári.

„Þetta verður að kvikmynd. Þetta mun gerast,“ sagði Kissell í samtali við TheWrap kvikmyndasíðuna. „Jafnvel þó við notuðum ekki Kickstarter, þá höfum við aðila sem eru tilbúnir að styðja við bakið á okkur.“

Fjárhagsáætlun myndarinnar hljóðar upp á 10 milljónir dala. Kissell segir að nú þegar séu nokkrir leikstjórar áhugasamir um að leikstýra, þar á meðal Timo Vuorensola sem leikstýrði Iron Sky.

Yaeger, sem sjálfur er fatlaður og vantar útlim, lánar ásjónu sína til teiknimyndasögupersónunnar, og tekur þátt í þróunarferlinu. Yaeger mun leika aðalhlutverk í kvikmyndinni, sem úrvalshermaðurinn, sem fer í stríð við undirheima Seattle borgar með tvo gerviútlimi.

„Mér fannst sem Kurt gæti komið með meiri trúverðugleika inn í þetta, og ég vildi ekki hafa leikara með grænskjá á útlimum til að sýna að limina vantaði,“ sagði Kissell, sem sjálfur vann við hjúkrun í bandaríska hernum.

Líkamleg fötlun Yaeger er ekki það eina sem hann á sameiginlegt með persónunni í teiknimyndasögunni, heldur hefur hann sjálfur glímt við áfallastreituröskun.

Hann segist hafa glímt við PTSD eftir mótorhjólaslys sem kostaði hann vinstri fót fyrir neðan hné.

Kissell líkir ofurhetjunni við nútíma útgáfu af Captain America, og segist fá innblástur frá hetjum eins og Batman og The Punisher, en mestan innblástur fær hann þó frá hetjunum sem enginn talar um eða tekur eftir, eins og hann orðar það á Kickstarter síðunni.

Ef þú vilt leggja fé til söfnunarinnar og taka þátt í verkefninu, þá er um að gera að smella hér, en eins og sést á síðunni þá er Kissell langt kominn með að safna 8.000 dölunum sem hann stefnir að.