Flýta Fast 7 um viku

Eins og CinemaBlend vefsíðan bendir á þá hefur það reynst Fast & Furious myndunum vel að vera frumsýndar í apríl. Flestar myndirnar hafa reyndar verið frumsýndar í júní, en þær tvær sem frumsýndar hafa verið í apríl eru tvær af þeim best sóttu í seríunni, en alls hafa sex myndir verið sýndar.

Fast_Furious_7_43720

Það kemur því ekki á óvart að Universal Pictures framleiðslufyrirtækið hefur ákveðið að frumsýna nýjustu myndina í seríunni í þeim mánuði, en eftir að framleiðsla myndarinnar tafðist eftir sviplegt fráfall aðalleikarans Paul Walker í bílslysi í nóvember sl., þá tilkynnti Universal að myndin yrði frumsýnd 10. apríl 2015 í stað 11. júlí 2014.

Nú hefur kvikmyndaverið bætt um betur og fært frumsýninguna til um viku, og verður myndin nú frumýnd 3. apríl á næsta ári.

Talið er að þetta sé gert m.a. til að minnka samkeppni við ofurhetjustórmyndina The Avengers: Age of Ultron, sem frumsýna á í maí á næsta ári, en eins og kunnugt er er fyrri Avengers myndin aðsóknarmesta mynd sögunnar.

Aðrar myndir sem keppa um hylli bíógesta á þessum tíma eru myndir eins og gamanmyndin Paul Blart: Mall Cop 2 og vísindatryllirinn Selfless.

Leikstjóri Fast & Furious 7 er hrollvekjuleikstjórinn James Wan ( The Conjuring ) og meðal leikenda eru Vin Diesel, Paul Walker, Dwayne Johnson, Michelle Rodriguez, Jordana Brewster, Tyrese Gibson, Ludacris, Lucas Black, Jason Statham, Kurt Russell, Tony Jaa, Ronda Rousey og Djimon Hounsou.