Í stuttu máli er „Terminal“ ekki eins góð og hún telur sig vera en þessi sjónræna upphefð á gömlum og nýlegum „noir“ myndum á sín augnablik.
Tveir leigumorðingjar (Dexter Fletcher og Max Irons) eru fengnir í verkefni. Breskur kennari við dauðans dyr (Simon Pegg) afhjúpar ótta sinn við gengilbeinu (Margot Robbie) sem er með eitthvað flókið ráðabrugg í gangi. Húsvörður á lestarstöð (Mike Myers) á samneyti við alla aðila og virðist koma eitthvað að atburðarrásinni.
Fortíð teygir sig inn í nútíð og blóðugt uppgjör er í vændum.
Þetta er frekar spes samsuða. Sjónræni stíllinn og tónlistin minnir á nýlegu Nicolas Wending Refn myndirnar „Only God Forgives“ (2013) og „Neon Demon“ (2016), löngu samræðurnar rifja upp fyrir manni ýmsar Tarantino myndir og allt er þetta hlaðið tilvitnunum í Lísu í Undralandi, ljóðlist og trúarlega ritningu. Ofbeldið er gróft en snögglega afgreitt þar sem aðaláherslan er lögð á stemningu og sjónræna upplifun og ákallar anda gamalla og nýlegra „noir“ mynda með gervilegu umhverfi og persónum sem leika tveimur, eða fleiri, skjöldum.
Því er ekki að neita að sjónræni stíllinn er flottur og augun upplifa algert ljósakonfekt og tónlistin nær að gera allt saman frekar svalt. Sagan heldur manni í óvissu lengst af þó flestir áhorfendur eru vafalaust búnir að geta sér til um ákveðna framvindu og þá tekur töluverð bið eftir því að myndin ljóstri því á endanum upp. En svo koma a.m.k. tveir aðrir óvæntir hlutir upp sem setja söguna í annað samhengi þar sem myndir nú í dag verða að hafa lágmark tvær til þrjár óvæntar uppljóstranir. Ekkert af þessu er eitthvað sem áhorfandinn fær tækifæri til að afkóða og því er varla hægt að hrósa handritinu fyrir mikil klókindi en engu að síður ber að hrósa myndinni fyrir frumlega framsetningu á sögunni.
Uppi stendur frekar nýstárleg mynd sem er því miður ekki eins góð og hún telur sig vera. Útlitið er flott, tónlistin svöl og „retró fílingurinn“ vel heppnaður en sagan er ekki nógu kjötmikil fyrir eins og hálfs tíma mynd með samtölum sem Tarantino sjálfur myndi vafalaust telja miðlungs fyrsta uppkast og persónum sem eru óspennandi að fylgjast með fyrir mestan part.
Leikararnir eru í raun ágætir og Robbie er eðal sýningarstúlka fyrir þetta umhverfi sem boðið er upp á, Pegg er ávallt skemmtileg viðbót og gaman að sjá Myers á ný eftir langt hlé frá kvikmyndaleik. Fletcher og Irons eru þó ósköp auðgleymanlegir og sá fyrrnefndi fær flestu leiðinlegu línurnar.
Þessi flokkast undir virðingarverða tilraun en herslumuninn vantar. En langt frá því að vera alslæm.