Fjölmennt á frumsýningu Ljósvíkinga

Íslenska kvikmyndin Ljósvíkingar var frumsýnd í Smárabíói við mikil fagnaðarlæti og meira að segja lét forseti okkar Halla Tómasdóttir sig ekki vanta á viðburðinum. Öruggt má segja að margt hafi verið um manninn og flotta gesti enda var pakkað í sölum bíósins þetta kvöld.*

Kvikmyndin er úr smiðju Snævars Sölva Sölvasonar og fjall­ar um æsku­vin­ina Hjalta og Björn sem reka fisk­veit­ingastað í heima­bæ sín­um yfir sum­ar­tím­ann. Þegar þeir fá óvænt tæki­færi til að hafa veit­ingastaðinn op­inn árið um kring til­kynn­ir Björn að hún sé trans kona og muni fram­veg­is heita Birna. Þess­ar breyt­ing­ar reyna á vinátt­una og þurfa þau bæði að horf­ast í augu við lífið á nýj­an hátt til þess að bjarga því sem mestu máli skipt­ir.

Með aðalhlutverk fara Björn Jör­und­ur Friðbjörns­son, Arna Magnea Danks, Sól­veig Arn­ars­dótt­ir og Ólafía Hrönn Jóns­dótt­ir. Í öðrum helstu hlutverkum eru Helgi Björns­son, Hjálm­ar Örn Jó­hanns­son, Vig­dís Hafliðadótt­ir, Sara Dögg Ásgeirs­dótt­ir, Pálmi Gests­son og Gunn­ar Jóns­son.

Stærsta verkefni Snævars

Ljósvíkingar er stærsta kvikmyndaverkefni Snævars til þessa. Áður hefur hann sent frá sér Albatross og Eden. Þá var hann leikstjóri sjónvarpsþáttanna Skaginn sem sýndir voru á RÚV. Þeir fjölluðu um karlalið fótboltaliðs ÍA sem vann það ein­staka af­rek að verða Íslands­meist­ari fimm ár í röð, frá 1992 til 1996. Þættirnir fengu fjölmiðlaverðlaun KSÍ fyrr á þessu ári.

Snævar segir að Ljósvíkingar eigi sér tíu ára aðdraganda en ekki hafi alltaf verið ljóst hvort að af henni yrði eða ekki. Þó var að hans sögn alltaf ákveðinn spenningur fyrir handritinu. “Ég fékk mjög góða umsögn hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands fyrir fyrsta uppkastið, bæði á fyrsta stigi og á lokastigi umsóknar. En það er orðið langt síðan. Það hefur tekið tíu ár að koma þessu á koppinn. Þetta er fyrsta fullfjármagnaða kvikmyndin mín.”

Á tímanum sem liðið hefur síðan 2014 hefur Snævar sinnt ýmsum verkefnum en hann segir að framleiðendurnir Júlíus Kemp og Ingvar Þórðarson hjá Kisa hafi alltaf viljað keyra verkefnið áfram. Þeim hafi fundist sagan þess virði að segja hana. “Þeir pressuðu þetta áfram. Ég er ánægður með að þeir ýttu þessari lest af stað.”

Sjá einnig: Lætur fólki líða betur með sjálft sig og lífið


*Hér að neðan má sjá myndir frá frumsýningunni.

Mummi Lú tók myndirnar.