Nýr Grand Theft Auto tölvuleikur, númer fimm í röðinni, kemur út þann 17. september nk. Leikurinn gerist í stórborginni Los Santos, þar sem úir og grúir af sjálfshjálparspámönnum, smástirnum og dvínandi stjörnum. Í borginni, sem áður var blómleg, berjast menn nú við að halda sér á floti á tímum efnahagsþrenginga og raunveruleikasjónvarps.
Í miðjum hræringunum leggja þrír glæpamenn, þeir Franklin, Michael og Trevor, á ráðin um eigin afkomu. Þegar hópurinn sér fram á að tækifærunum til að auðgast fækkar sífellt hætta þeir öllu fyrir röð hættulegra og fífldjarfra rána sem gætu komið þeim í steininn fyrir lífstíð.
Sjáðu stiklu úr leiknum hér að neðan:
„Grand Theft Auto V heldur áfram að setja leikjaröðinni ný viðmið; Rockstar North eru að skapa dýpsta, fallegasta og mest umlykjandi heiminn sem við höfum sent frá okkur hingað til“ segir Sam Houser, stofnandi Rockstar Games.
Í GTA V er sögu og leik teflt saman á nýstárlegan hátt því þátttakendur stökkva hvað eftir annað inn í og út úr lífum þriggja aðalpersóna leiksins.
Þannig er unnt að spila allar hliðar leiksins og taka þátt í að flétta saman þræði sögunnar. Því má segja að heimur GTA V sé sá stærsti, gagnvirkasti og fjölbreyttasti sem Rockstar Games hafa búið til.
Öll helstu aðalsmerki leikjaraðarinnar eru til staðar í GTA V, þar með talin ótrúleg áhersla á smáatriði. Dregin er upp kolsvört og kaldhæðnisleg mynd af samtímamenningunni ásamt því sem alveg ný einkenni líta dagsins ljós.
Í tilkynningu frá Senu segir að Grand Theft Auto V sé væntanlegur 17. september og verði fáanlegur á PS3 og Xbox 360.