Leikstjóri leikstýrir mynd sem fjallar um leikstjóra að leikstýra leikara sem leikur leikstjóra. Skiljiði? Frá leikstjóranum sem færði okkur The Artist – sem sópaði að sér fimm Óskarsverðlaunum árið 2012, kemur uppvakninga-grín-hryllingsmynd með tilheyrandi lítrum af gerviblóði, ælu og öðru efni úr iðrum manna.
Coupez! (Final Cut) er endurgerð japönsku költmyndarinnar One Cut of the Dead eftir Shin’ichirô Ueda frá árinu 2017 og þannig órafjarri slípaðri og yfirvegaðri áferð The Artist, þó að hin íðilfagra Bérénice Bejo fari með eitt aðalhlutverka.
Oft verða bíómyndir um leikstjóra og kvikmyndagerðarfólk óþolandi sjálfsfimmu-seremónía, en Michel Hazanavicius kemst upp með það, enda er nálgunin fersk þrátt fyrir rotið hold. Sömuleiðis hæðist Hazanavicius að leikstjórastéttinni, fantasían um „auteur-inn“, snillinginn með handbragðið, er tekin og rassskellt hressilega, meðal annars með vísun í Quentin Tarantino sem er hálfpartinn grátbrosleg.
Óöruggur lúði
Leikstjórinn er óöruggur lúði, búinn að yfirgefa listina fyrir veskið og glata sjálfsvirðingunni og dýrmætum tengslum í leiðinni. Þetta er vel gert og myndinni tekst að vera angurvær fjölskyldusaga á köflum án þess að vera væmin. Myndin hæðist að tilgerðarlegum töktum ungra stjörnuleikara í Cannes, Finnegan Oldfield leikur eiginlega sjálfan sig í þeim senum. Sagan segir ódýra brandara á kostnað samfélagsmiðlastjarna, og hefur afskaplega litla samúð með slíkum týpum. Það er kannski stærsti gallinn, tvívíðar aukapersónur sem hefði verið gaman að kynnast betur.
Óhefðbundin söguframvinda
Það er rétt að gefa ákveðinn fyrirvara. Uppsetning á söguframvindu er óhefðbundin og nauðsynlegt að gefa verkinu séns og fyrirgefa ýmislegt fyrstu tuttugu mínúturnar. Myndin dettur í senur sem eru í fáránleika sínum hysterískt fyndnar, sem er hressandi að finna í bíó á þessum síðustu og verstu. Hvað er að gerast? stundu bíógestir upp á milli hláturrokanna. Ekki missa af Coupez! í Bíó Paradís, þetta er algjör bíósalar-bíómynd sem stækkar mikið í samfélagi við aðra áhorfendur.
Niðurstaða: Fyrir unnendur kvikmynda og upplifunar í kvikmyndahúsi má tvímælalaust mæla með Coupez! Uppvakninga-stimpillinn er í aftursætinu en aðalsagan er mannleg saga af fólki sem vill gera sitt besta, oftast. Þetta er mynd sem kemur fólki í gott skap og minnir okkur á það sem skiptir máli, og undirstrikar í leiðinni að við eigum stundum að láta smáatriðin eiga sig. Hratt, ódýrt og viðunandi.
Nína Richter.
Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu. Millifyrirsagnir eru frá kvikmyndir.is