Fast and the Furious serían hefur gengið í gegnum hæðir og lægðir á ferlinum. Fyrir sjö árum náði The Fast and the Furious: Tokyo Drift til dæmis rétt að skrapa saman 25 milljónir Bandaríkjadala í miðasölunni í Bandaríkjunum á frumsýningarhelgi sinni, en síðasta mynd, sú fimmta í röðinni var frábær skemmtun og sló algjörlega í gegn. Nú virðist sem sjötta myndin, Fast and the Furious 6, sem frumsýnd var í Bandaríkjunum í gær, sé að gera það sama og sú fimmta, en hún skaut öllum öðrum nýjum myndum sem frumsýndar voru í gær, ref fyrir rass í miðasölunni.
Samkvæmt vefsíðunni The Hollywood Reporter þá voru áætlaðar tekjur Fast and Furious sex, 38,2 milljónir dala í gær, föstudag, og miðað við þær tölur er áætlað að heildartekjur myndarinnar í Bandaríkjunum yfir alla helgina verði í kringum 120 milljónir dala, sem yrði önnur besta frumsýningarhelgi myndar í sögu seríunnar.
Í Bandaríkjunum er svokölluð Memorial Day helgi, sem þýðir að það er frí á mánudaginn, og helgin því lengri en ella.
The Hangovert Part III var einnig frumsýnd í gær, en hún náði ekki nálægt því sömu hæðum og Fast and the Furious 6. Þessi mynd, sem er sú síðasta í seríunni, þénaði 14,5 milljónir dala og var önnur vinsælust í Bandaríkjunum, en miðað við þessar fyrstu tölur þá er talið að myndin muni þéna í kringum 65 milljónir dala yfir alla helgina að fimmtudeginum síðasta og mánudeginum næsta, meðtöldum.
Þó að tölurnar séu ekki alslæmar, þá stefnir myndin í að verða aðeins hálfdrættingur á við síðust mynd í seríunni, The Hangover Part II, sem var frumsýnd fyrir tveimur árum síðan, og þénaði hvorki meira né minna en 135 milljónir dala á frumsýningarhelgi sinni.
Star Trek Into Darkness, vinsælasta mynd síðustu helgar í Bandaríkjunum, var sú þriðja aðsóknarmesta í gær, með um 10 milljónir dala í tekjur, og stefnir í 40 milljónir yfir alla helgina.
Teiknimyndin Epic fylgir reyndar fast á hæla hennar, en hún þénaði 9,4 milljónir dala, og gæti hrifsað þriðja sætið af Star Trek þegar búið verður að telja alla dollara upp úr kössunum.