Erfiðlega gengur að finna nýjan leikstjóra fyrir áttundu Fast & Furious-myndina. Hún á að koma út í apríl 2017 en svo gæti farið að henni verði seinkað.
James Wan leikstýrði hinni gríðarvinsælu Furious 7, sem tvöfaldaði næstum því aðsóknartekjur myndarinnar á undan.
Wan hafði lofað því að leikstýra tveimur Furious-myndum til viðbótar en hætti við og ákvað áður en tökum lauk á Furious 7 að leikstýra frekar framhaldi hryllingsmyndar sinnar The Conjuring.
Það sem gerir málið enn snúnara fyrir kvikmyndaverið Universal Pictures er að Justin Lin, sem leikstýrði Furious-myndum númer þrjú til sex, valdi frekar að gera næstu Star Trek-mynd heldur en að snúa aftur til að gera Fast & Furious 8. Einnig þykir það ekki hjálpa til að aðalleikarinn Vin Diesel ku vera erfiður í samstarfi.
„Við erum að velja leikara og leita að rétta leikstjóranum fyrir næsta kafla í kvikmyndabálknum,“ sagði talsmaður Furious-myndanna við Hollywood Reporter.