Tökum á bílatryllinum Fast and Furious 8 er, að því er virðist, enn ekki lokið, en þó er búið að boða birtingu fyrstu stiklunnar, sem væntanlega mun innihalda efni frá Íslandi, en tökulið og leikarar dvöldu hér í drjúgan tíma sl. vor eins og flestum ætti að vera enn í fersku minni.
Nú fyrr í nýliðinni viku birti aðalleikari myndarinnar, Vin Diesel, mynd á Facebook, þar sem hann tilkynnti að fyrsta stikla myndi verða frumsýnd 11. desember nk.
Í Facebook færslunni þá minntist Diesel á spennu sem ríkt hefur á milli hans og annars stórleikara í myndinni, Dwayne Johnson, sem kallaði ónefnda karlkyns meðleikara sína „súkkulaði rassa“ ( Candy Asses ), og sumir hafa leitt líkum að því að hann hafi átt við Diesel.
Samkvæmt frétt í MovieWeb þá er Diesel þekktur fyrir að láta meðleikara og tökulið oft bíða tímunum saman á tökustað þangað til hann er klár í tökur. Mögulega er öll spennan þó hluti af kynningarstarfi myndarinnar.
„Stiklan mun verða algjör sprengja … New York City 11. desember. Þið munuð sjá afhverju það var spenna, þið munuð skilja núninginn.“
Fast 8 gerist í New York, og tökur eiga eftir að fara fram í New York, Atlanta og í Rússlandi. Nú þegar er búið að taka upp á Kúbu og á Íslandi.
Talið er að á Kúbu munum við kynnast fjölskyldu Dominic Torreto, persónu Diesel.
Myndin kemur í bíó 14. apríl nk. Myndin númer níu kemur 19. apríl 2019 og mynd númer tíu kemur 2. apríl 2021.
Straight Outta Compton leikstjórinn F. Gary Gray leikstýrir Fast 8.
Sjáðu myndina sem Diesel birti á Facebook, hér fyrir neðan: