Breski popptónlistarmaðurinn Elton John er nú að framleiða mynd um eigið líf, sem kallast Rocket Man, eftir samnefndu lagi hans sjálfs. Handritið skrifar Lee Hall, en þeir tveir unnu saman að söngleiknum Billy Elliot.
Nú hefur verið ráðinn leikstjóri að verkinu, en það er Michael Gracey, sem meðal annars er þekktur auglýsingaleikstjóri.
Samkvæmt upplýsingum frá fyrirtæki Elton John, Rocket Films, þá verður Rocket Man óvenjuleg ævisaga sem á að endurspegla ævintýralegt lífshlaup Elton John.
„Myndin verður jafn óvenjuleg og líf Eltons,“ sagði forstjóri Rocket Films, Steve Hamilton Shaw árið 2011.
Nýi leikstjórinn ætti að geta gert frumlega og ævintýralega hluti miðað við fyrri verk hans í auglýsingageiranum en hann er m.a. þekktur fyrir verðlaunaauglýsingar sínar fyrir Evian vatnið, þar á meðal þessa hér að neðan.
Gracey hefur verið orðaður við ýmsar bíómyndir að undanförnu en svo gæti farið að Rocket Man verði samt frumraun hans í bíómyndabransanum.
Það er rétt að taka það fram til að forðast misskilning að ekki er hér um að ræða mynd Dags Kára Péturssonar sem ber sama titil.