Leikarinn Jim Kelly, sem lék tungulipran bandarískan bardagalistamann í karatemyndinni goðsagnakenndu Enter the Dragon frá árinu 1973, á móti Bruce Lee, er látinn, 67 ára að aldri.
Marilyn Dishman, fyrrverandi eiginkona Kelly, tilkynnti um andlátið og sagði að banamein hans hefði verið krabbamein.
Hann lést á laugardaginn sl. á heimili sínu í Kaliforníu.
Kelly, sem skartaði gríðarlegri Afró hárgreiðslu og vígalegum börtum í myndinni, vakti athygli fyrir skemmtilega frasa sína í bíómyndinni og hæfileika á sviði bardagalista. Kelly lék síðar í myndum eins og Three The Hard Way, Black Belt Jones og Black Samurai.
Í viðtali við vefmiðilinn Salon.com árið 2010 sagði Kelly að hann hefði byrjað að æfa bardagalistir árið 1964 í Kentucky og hann hafi síðar flutt til Kaliforníu. Hann sagði að hlutverkið í Bruce Lee myndinni hefði hann fengið þegar umboðsmaður hans hringdi í hann. Þetta var annað kvikmyndahlutverk hans.
„Þetta var ein besta reynsla lífs míns,“ sagði hann við Salon.com um reynsluna af að leika í Enter the Dragon.
„Bruce var einfaldlega ótrúlegur, algjörlega frábær. Ég lærði svo mikið af að vinna með honum. Ég naut þess líklega meira að vinna með honum en nokkrum öðrum sem ég hef unnið með í bíómyndum, af því að við vorum báðir bardagalistamenn. Og hann var algjörlega frábær á því sviði. Þetta var mjög gott.“