Enginn Grant í Bridget Jones 3

Sorgarfréttir fyrir aðdáendur breska leikarans Hugh Grant og myndanna um Bridget Jones: Nú hefur Grant lýst því yfir að hann muni ekki koma fram í þriðju myndinni um hina seinheppnu Jones, en myndin hefur verið í undirbúningi í mörg ár.

grant

„Ég ákvað að vera ekki með,“ sagði Grant, sem lék ástmögurinn Daniel Cleaver í fyrri myndunum tveimur, í útvarpsviðtali á útvarpsstöðinni Free Radio. „En ég held að þeir muni halda áfram þó Daniel verði ekki með. Bókin er frábær, en handritið er mjög ólíkt – eða, þ.e. handritið eins og það var þegar ég las það fyrir nokkrum árum.“

Enn hefur ekki tekist að finna endanlegan leikstjóra fyrir myndina, og því hefur gerð myndarinnar verið í limbói, og nú er spurning hvaða þýðingu þessi yfirlýsing hefur fyrir gerð myndarinnar.

Grant hefur áður gert kröfu um að handritið verið endurskrifað, en hann hefur greinilega ekki haft erindi sem erfiði.

Myndin er sögð halda áfram að segja sögu Bridget ( í túlkun Renee Zellweger ) á ólíkan hátt frá því sem gert er í þriðju bók Helen Fielding, Mad About the Boy, en bókin olli uppnámi ( ath. hér er á ferð uppljóstrun á efni bókarinnar fyrir þá sem vilja hætta að lesa núna ) þegar sjálfur Mark Darcey, sem Colin Firth lék í fyrri myndunum tveimur, var látinn deyja og Bridget stóð eftir sem einstæð móðir tveggja drengja.